fbpx

MMR birtir reglulega niðurstöður úr könnunum sem unnar hafa verið meðal almennings um málefni líðandi stundar. Kannanirnar eru jafnan unnar sem hluti af spurningavagni MMR og efnistök valin af starfsfólki MMR út frá þeim fréttum sem eru áberandi í umfjöllun þegar viðkomandi könnunin hefst. MMR birtir ekki fréttatilkynningar úr könnunum sem eru unnar fyrir aðra eða fjármagnaðar af öðrum.

 

Meirihluti landsmanna kváðu umræðuna um #MeToo hreyfinguna, sem hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum, vera jákvæða fyrir íslenskt samfélag. Þetta kom fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 16. til 22. maí 2018. Sögðu tæp 71% svarenda umræðuna vera jákvæða fyrir íslenskt samfélag en tæplega 37% kváðu hana mjög jákvæða. 17% svarenda kváðu umræðuna hvorki vera jákvæða eða neikvæða en tæp 13% svarenda töldu hana neikvæða, þar af 5% mjög neikvæða.

|

Um tveir af hverjum þremur Íslendingum (67%) höfðu aðgang að Netflix á heimili sínu sem er aukning um 8 prósentustig frá sama tíma í fyrra. Samhliða hefur þeim fækkað sem hugðust kaupa áskrift á næstunni. Sértaka athygli vekur að heil 90% Íslendinga undir þrítugu hafði aðgang að Netflix. Þetta kom fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 16. til 22. maí 2018.

|

Skiptar skoðanir voru á meðal landsmanna á því hvort hætta ætti dönskukennslu í grunnskólum landsins og kenna annað tungumál í staðinn, er fram kemur í könnnun MMR sem framkvæmd var dagana 12. til 18. júní 2018. Svarendur skiptust í jafnar fylkingar í afstöðu sinni til málsins en 38% voru andvíg og 38% fylgjandi breytingum á tungumálakennslu, þar af 18% mjög andvíg og 21% mjög fylgjandi. 24% svarenda kváðust hvorki andvígir né fylgjandi slíkum breytingum.

|

Nær öll íslenska þjóðin er á Facebook (91%) og um tveir af hverjum þremur nota Snapchat (66%) reglulega. Þetta kom í ljós í könnun MMR á samfélagsmiðlanotkun landsmanna sem framkvæmd var dagana 16. til 22. maí 2018. YouTube (65%), Spotify (50%) og Instagram (44%) nutu einnig nokkurra vinsælda á meðal svarenda.

|

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með með stuðning 21,6% landsmanna og er stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi samkvæmt nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 12.-18. júní. Fylgi Sjálfstæðisflokksins dróst þó saman um rúm tvö prósentustig frá síðustu mælingu sem lauk 22. maí. Samfylkingin mældist með 15,1% fylgi sem er aukning um hálft prósentustig frá síðustu mælingu. Píratar mældust nú með 14,3% fylgi sem er á pari við síðustu mælingu.

Stuðningur við ríkisstjórnina reyndist óbreyttur að heita má - en 50,1% sögðust styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 49,8% í síðustu mælingu.

|

Íslenska þjóðin kvaðst hóflega bjartsýn á gengi íslenska knattspyrnulandsliðsins á HM í Rússlandi sem nú stendur yfir samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana 12. til 18. júní. Af aðspurðum töldu 59% íslenska landsliðið líklegt til að komast upp úr riðlakeppninni en þar af töldu tæp 19% að liðið kæmist í 8 liða úrslit eða lengra. 41% svarenda spáðu hins vegar að þátttöku Íslands í keppninni myndi ljúka með síðasta leik liðsins í hinum geysisterka D-riðli.

|

Lítill munur var á því hversu margir vildu kaffið sitt svart eða með mjólk, samkvæmt könnun MMR á kaffidrykkju Íslendinga sem framkvæmd var dagana 16. til 22. maí 2018. Af þeim sem svöruðu sögðust 38% þiggja kaffið sitt svart og 39% með mjólk en fáir með sykri (0,1%) eða mjólk og sykri (2%). Hlutfall svarenda sem vildu helst aðra kaffidrykki var einnig nokkuð lágt (3%) en athygli vekur að um það bil fimmti hver Íslendingur (19%) kvaðst ekki drekka kaffi.

|

Skiptar skoðanir eru á því hvort að Íslendingar eigi að hefja hvalveiðar á ný, samkvæmt könnun sem MMR framkvæmdi dagana 26. apríl til 2. maí 2018. Rúmlega þriðjungur svarenda kváðust frekar eða mjög andvígir áframhaldandi hvalveiðum (34%) og rúmlega þriðjungur hlynntur þeim (34%) en tæplega þriðjungur kvaðst hvorki hlynntur né andvígur (31%).

|

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með með stuðning 23,7% landsmanna og þar með stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi samkvæmt nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 16.-22. maí. Fylgi Sjálfstæðisflokksins dróst þó saman um tæpt prósentustig frá síðustu mælingu sem lauk 2. maí. Samfylkingin mældist með 14,6% fylgi sem var á pari við síðustu mælingu. Píratar mældust nú með 14,1% fylgi og bæta við sig rúmu prósentustigi milli mælinga.

Stuðningur við ríkisstjórnina dalaði milli mælinga en 49,8% sögðust styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 52,8% í síðustu mælingu.

|

Töluverð andstaða reyndist gegn innheimtu veggjalda til að standa straum af rekstri þjóðvega á Íslandi, samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana 13. til 19. apríl 2018. Alls sögðust 50% svarenda andvígir innheimtu slíkra gjalda en 31,4% hlynntir henni. Stuðningur við innheimtu veggjalda hefur þó aukist lítillega (um 6 prósentustig) á milli ára en 25,4% svarenda kváðust hlynntir slíkri gjaldtöku í könnun MMR frá apríl 2017. Hlutfall andvígra hefur að sama skapi minnkað um tæp 6 prósentustig á milli ára. 

|

Stór meirihluti íslensku þjóðarinnar taldi efnahagsstöðuna á Íslandi vera góða, samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana 13. til 19. apríl 2018. Rúmlega 80% aðspurðra töldu stöðu efnahagsins vera nokkuð eða mjög góða en það var 15 prósentustiga hækkun frá könnun MMR frá apríl 2017. Einungis 4% svarenda kváðu stöðuna mjög slæma, 6 prósentustigum færri en á sama tíma í fyrra en hlutfall þeirra sem taldi efnahagsstöðu frekar slæma minnkaði einnig um 9 prósentustig á milli ára.

|

Nær helmingur landsmanna (44,9%) taldi að fjöldi þess flóttafólks sem veitt er hæli á Íslandi væri nægilegur. Þetta kemur fram í nýlegri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 2. til 12. mars 2018. Alls töldu 29,4% svarenda of lítinn fjölda flóttamanna fá hælisveitingu á Íslandi en 25,7% kváðu of mikinn fjölda flóttafólks fá hæli á landinu.

|

Íslenska þjóðin kvaðst klofinn í væntingum sínum um hvort að framlag Íslands myndi komast áfram úr undanúrslitum Eurovision á morgun. Þetta kom fram í könnun MMR sem framkvæmd var skömmu eftir að framlag Íslands var valið í mars síðastliðnum. Af aðspurðum töldu 49% íslenska lagið líklegt áfram til þátttöku á úrslitakvöldinu en 10% sögðust vongóðir um að það myndi hreppa eitt af tíu efstu sætunum. 34% svarenda spáðu hins vegar að lagið, sem er í flutningi Ara Ólafssonar, myndi enda í einu af átta neðstu sætum keppninnar.

|

Meirihluti landsmanna segist andvígur því að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana 2. til 12. mars 2018. Tæplega 74% svarenda kváðust andvíg því að heimila sölu á sterku áfengi (meira en 22% áfengisinnihald) í matvöruverslunum, þar af rúm 61% mjög andvíg. Minni andstaða var gegn sölu á léttu áfengi og bjór (minna en 22% áfengisinnihald) en tæp 55% svarenda sögðust andvíg sölu á léttu áfengi og bjór í matvöruverslunum, þar af tæplega 43% mjög andvíg. Stuðningur við leyfi til sölu var rúmlega 15% við sölu á sterku áfengi og tæplega 36% við sölu á léttu áfengi og bjór.

|

Meirihluti landsmanna segir hluti almennt vera að þróast í rétta átt á Íslandi samkvæmt nýrri könnun MMR. Alls sögðu tæp 58% svarenda hlutina vera á réttri leið, sem er 12% hækkun frá könnun MMR sem framkvæmd var í febrúar 2017. Einnig var spurt hvaða málaflokkar valdi svarendum mestum áhyggjum og reyndust áhyggjur af heilbrigðisþjónustu svarendum efst í huga.

|

Sjálfstæðisflokkurinn mældist stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi með stuðning 23,9% landsmanna samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana 13.-19. apríl. Píratar mældust annar stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi með 15,3% fylgi og bæta við sig 2,1 prósentustigum frá síðustu mælingu sem lauk 19. mars síðastliðinn. Vinstri græn mældust á svipuðum slóðum og í síðustu mælingu og fá 14,3% fylgi. Samfylkingin tapar 2,5 prósentustigum milli mælinga en Flokkur fólksins bætir við sig 3,3 prósentustigum.

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 53,1%. Stuðningurinn dalar eilítið frá síðustu mælingu þegar 55,2% kváðust styðja ríkisstjórnina.

|

Meirihluti landsmanna segist andvígur því að leyfa birtingar áfengis- og tóbaksauglýsinga samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var í janúar. Rúmlega 60% svarenda sögðust andvíg því að áfengisauglýsingar væru heimilaðar en þar af sögðust tæp 42% vera mjög andvíg því. Stuðningur við heimilun áfengisauglýsinga var 18%. Athygli vekur að afstaða virtist nokkuð breytileg eftir kyni og aldri en karlmenn sögðust hlynntari birtingu slíkra auglýsinga en konur, auk þess sem andstaða gegn þeim jókst með aldri.

|

Sléttur helmingur landsmanna segjast fylgjandi banni á umskurði ungra drengja samkvæmt nýrri könnun MMR sem lauk í dag. Landsmenn virðast hafa nokkuð sterkar skoðanir á málinu og sést meðal annars helst á því að 68% svarenda höfðu algerlega öndverða skoðun á málinu, það er sögðu að þeir væru annað hvort mjög fylgjandi banninu (39%) eða sögðust mjög andvíg umskurnarbanni (29%). Þá voru 11% sem sögðust banninu frekar fylgjandi, 8% sögðust banninu frekar andvíg og 13% svarenda skipuðu sér á hlutleysisbekk í málinu og kváðust hvorki vera fylgjandi né andvíg banni við umskurði ungra drengja. Þá vekur athygli að öndverð afstaða til málsins virðist ganga þvert á flesta stjórnamálaflokka þannig að segja má að þjóðin sé pólitískt séð klofin í málinu.

|

Samkvæmt nýrri bílakaupakönnun MMR hefur fjöldi þeirra sem kjósa helst að eignast rafmagnsbíl aukist verulega á síðustu árum. Samkvæmt könnuninni voru 42% þeirra sem hugðust kaupa sér nýjan bíl (ekki notaðan) innan þriggja ára sem vildu helst að bíllinn væri knúinn rafmagni sem aðal orkugjafa. Þetta er ríflega tvöföldun frá árinu 2015, þegar 20% þeirra sem íhuguðu kaup á nýjum bíl sögðust helst vilja rafmagn sem aðal orkugjafa. Á sama tíma hefur eftirspurn eftir diesel knúnum bifreiðum minnkað stórkostlega og fellur úr 47% í 28% milli ára.

|

Stór hluti Íslendinga eða heil 71% landsmanna, segjast vera með Costco aðildarkort. Af þeim sem kváðust vera með Costco aðildarkort hugðust 60% endurnýja kortið þegar þar að kæmi en 35% eru óákveðin og 6% hyggjast ekki endurnýja aðild.

|

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með með stuðning 22,3% landsmanna og er stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi samkvæmt nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 25-30. janúar. Fylgi Sjálfstæðisflokksins dregst þó saman um 3,5 prósentustig frá síðustu mælingu sem lauk 17. janúar. Vinstri græn mældust með 18,4% fylgi og bæta við sig 3,4 prósentustigum milli mælinga. Samfylkingin mældist nú með 14,9% fylgi og bætir við sig einu prósentustigi milli mælinga.

Stuðningur við ríkisstjórnina dalar milli mælinga en 60,6% sögðust styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 64,7% í síðustu mælingu í janúar og 66,7% í desember 2017.

|
Síða 8 af 27
Almennt um birtar niðurstöður kannana MMR
MMR birtir reglulega niðurstöður úr könnunum sem unnar hafa verið meðal almennings um málefni líðandi stundar. Kannanirnar eru jafnan unnar sem hluti af spurningavagni MMR og efnistök valin af starfsfólki MMR út frá þeim fréttum sem eru áberandi í umfjöllun þegar viðkomandi könnunin hefst. MMR birtir ekki fréttatilkynningar úr könnunum sem eru unnar fyrir aðra eða fjármagnaðar af öðrum. Kannanir MMR eru unnar samkvæmt siðareglum ESOMAR.
 
Notkun á efni heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er skýrt getið í heimildum um uppruna gagnanna.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.
MMR er skrásett vörumerki Markaðs og miðlarannsókna ehf.