Jólahefðir

|

Stúfur hefur loks látið til skara skríða og mælist nú í fyrsta sinn vinsælasti jólasveinninn, eftir að hafa setið í skugga Kertasníkis síðustu ár. Alls nefndu 30% svarenda í könnun þessa árs Stúf sem sinn uppáhalds jólasvein en 28% nefndu Kertasníki. Vinsældir beggja sveinanna aukast nokkuð frá síðustu mælingu en aðeins hefur dregið úr vinsældum Hurðaskellis (12%), enda eflaust óþarflega hávær gestur nú þegar landsmönnum í sóttkví fjölgar ört.

Stúfur hefur gert ýmsar atlögur að hjörtum landsmanna í gegn um árin en vinsældir hans hafa þó verið öllu hverfulli en Kertasníkis sem alltaf hefur tekist að halda í forskot sitt á toppnum. Skyrgámur hefur hreiðrað vel um sig í fjórða sætinu síðustu ár en Stekkjastaur sækir vel að og situr í því fimmta. Þá er spurning hvort að Covidraunir Íslendinga hafi átt þátt í að skapa hlýhug til Gluggagægis, sem laumar sér í sjötta sæti listans þetta árið.

Líkt og fyrri ár reka þeir Þvörusleikir, Gáttaþefur, Askasleikir og Pottaskefill restina en þeir mega nú fara að hugsa sinn gang ef þeir ætla sér að öðlast vinsældir meðal landsmanna á næstunni.

 

1912 Jólasveinar heild Spurt var: Hver er þinn uppáhalds jólasveinn?
Svarmöguleikar voru: Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir og ég á engan uppáhalds jólasvein.
Samtals tóku 71,7% afstöðu til spurningarinnar, aðrir kváðust ekki eiga uppáhalds jólasvein.
Hlutfallstölur eru reiknaðar sem hlutfall af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar.

 

Vinsældir jólasveinanna voru sem áður nokkuð ólíkar milli kynja. Stúfur reyndist enn vinsælasti jólasveinninn meðal kvenkyns svarenda og nefndu 37% hann sem sinn uppáhalds jólasvein en 36% kvenna nefndu Kertasníki. Engir jólasveinar náðu sömu hæðum í vinsældum sínum meðal karlkyns svarenda en Stúfur (22%) og Kertasníkir (20%) reyndust þar þó einnig efstir á blaði. Þá reyndust vinsældir Hurðaskellis umtalsvert meiri hjá körlum (16%) heldur en konum (7%) en hið sama má einnig segja um próteinsveinana Skyrgám, Ketkrók og Bjúgnakræki.

1912 Jólasveinar kyn

Nokkurn breytileika var einnig að sjá á vinsældum jólasveinanna eftir aldurshópum. Stúfur reyndist vinsælastur meðal yngstu svarenda (34%) og fóru vinsældirnar minnkandi með auknum aldri en 26% þeirra 68 ára og eldri sögðu hann sitt uppáhald. Kertasníkir reyndist vinsælastur meðal svarenda 68 ára og eldri (34%) og deildu Stúfur og Kertasníkir efsta sætinu meðal svarenda 30-67 ára. Skyrgámur mældist enn sem áður óvinsælli hjá svarendum elsta aldurshópsins (2%) en hjá öðrum svarendum (5-6%). Athygli vekur að enginn svarenda elsta aldurshópsins nefndi Skyrgám sem sinn uppáhalds jólasvein, samanborið við 7-8% svarenda annarra aldurshópa en elstu svarendurnir voru aftur á móti líklegri en aðrir til að segja Ketkrók (7%) sinn uppáhalds jólasvein.

1912 Jólasveinar aldur

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 2.051 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 13. til 20. desember 2021

Eldri kannanir sama efnis:
2020 desember: Stúfur og Kertasníkir saman á toppnum
2019 desember: Stúfur saxar aftur á forskot Kertasníkis
2018 desember: Kertasníkir enn vinsælasti jólasveinninn
2017 desember: Stúfur sækir stíft að Kertasníki
2016 desember: Kertasníkir vinsælasti jólasveinninn
2015 desember: Vinsældir íslensku jólasveinanna