Alþingiskosningar

|

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 24,6%, tæplega tveimur prósentustigum hærra en í síðustu fylgismælingu MMR sem lögð var fyrir dagana 11.-20. maí. Fylgi Pírata mældist nú 13,5%, tveimur og hálfu prósentustigi hærra en í síðustu könnun og fylgi Framsóknarflokksins jókst um tæp þrjú prósentustig og mældist nú 12,5%. Fylgi Vinstri-grænna minnkaði um þrjú prósentustig á milli mælinga og mældist nú 11,1%, fylgi Viðreisnar jókst um rúmt prósentustig og mældist nú 11,0% og fylgi Samfylkingarinnar minnkaði um rúmt prósentustig og mældist nú 10,9%. Þá minnkaði fylgi Miðflokksins um rúmt prósentustig og mældist nú 6,5%.

Þegar gögnin eru skoðuð aftur í tímann má sjá að nokkurs titrings gætir í fylgi flokkanna. Þessar sveiflur eru eðlilegar og til marks um þau áhrif sem stjórnmálaumræðan hefur á þeim tímapunkti þegar viðkomandi könnun er tekin. Það sem er sérstaklega áhugavert við þessar sveiflur er að þær sýna okkur á milli hvaða flokka baráttan stendur. MMR hefur áður gert að umfjöllunarefni hve stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn sveiflast í gagnstæða átt við fylgi Miðflokksins sem hefur þótt til marks nokkra baráttu milli flokkanna um hilli sömu kjósendanna. Það sem hefur gerst frá áramótum er að slíkar baráttulínur hafa komið í ljós milli fleiri flokka og má í dag, til viðbótar við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, sjá neikvæða fylgni (r = -0,75 eða sterkari) milli Vinstri grænna og Pírata, Samfylkingar og Sósíalista auk Viðreisnar og Flokks fólksins. Þessar hræringar eru að mati MMR til marks um að nú þegar hyllir undir lok Covid baráttunnar og athygli stjórnmálamanna beinist í auknu mæli að hefðbundum stjórnmálum þá séu línur teknar að skerpast í huga kjósenda um hvaða flokka þeir munu velja á milli í komandi kosningum.

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 50,2% og minnkaði um tæplega þrjú prósentustig frá síðustu könnun, þar sem stuðningur mældist 53,0%.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 24,6% og mældist 22,8% í síðustu könnun.
Fylgi Pírata mældist nú 13,5% og mældist 11,0% í síðustu könnun.
Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 12,5% og mældist 9,6% í síðustu könnun.
Fylgi Vinstri grænna mældist nú 11,1% og mældist 14,1% í síðustu könnun.
Fylgi Viðreisnar mældist nú 11,0% og mældist 9,7% í síðustu könnun.
Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 10,9% og mældist 12,1% í síðustu könnun.
Fylgi Miðflokksins mældist nú 6,5% og mældist 7,9% í síðustu könnun.
Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mældist nú 5,6% og mældist 6,7% í síðustu könnun.
Fylgi Flokks fólksins mældist nú 2,8% og mældist 4,2% í síðustu könnun.
Stuðningur við aðra mældist 1,6% samanlagt.

Fylgi

Lagðar voru allt að þrjár spurningar fyrir svarendur um stuðning þeirra við stjórnmálaflokka. Allir voru spurðir spurningar 1: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?“. Þeir sem svöruðu „Veit ekki/óákveðin(n)“ við spurningu 1 voru því næst spurðir spurningar 2: „En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?“. Ef aftur var svarað „Veit ekki/óákveðin(n)“ þá voru þátttakendur að lokum spurðir spurningar 3: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“. Fjölda þeirra sem svaraði "einhvern hinna" í spurningu 3 var skipt milli annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins í sama hlutfalli og fylgi þeirra var skv. spurningum 1 og 2. Samtals voru 79,5% sem gáfu upp afstöðu til flokka, aðrir kváðust óákveðnir (5,7%), myndu skila auðu (6,5%), myndu ekki kjósa (2,5%) eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína (5,8%). Myndin sýnir niðurstöðu könnunar að viðbættum efri og neðri vikmörkum miðað við 95% öryggisbil ásamt samanburði við síðustu kannanir þar á undan.

Þróun yfir tíma

Þróun yfir tíma

 

Stuðningur við ríkisstjórnina

Stuðningur


Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.
Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma.
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 951 einstaklingur, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 25. maí til 1. júní 2021