Tilveran

|

Yfir helmingur Íslendinga (54%) spáði Daða og Gagnamagninu einu af 10 efstu sætunum í Eurovision í ár en 7% spáðu íslenska framlaginu einu af þremur neðstu sætum keppninnar. Þá voru 88% svarenda sem spáðu íslenska framlaginu, 10 Years, meðal þeirra 25 efstu í keppninni og þar með þátttöku í lokakeppni Eurovision á laugardagskvöld. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR. Bjartsýni landsmanna á velgengni Daða og Gagnamagnsins svipar til afstöðu þjóðarinnar gagnvart Hatara í keppninni 2019, þegar 49% landsmanna spáðu íslenska framlaginu sæti á meðal 10 efstu.

Alls kváðust 22% telja að íslenska lagið muni enda í 1.-5. sæti, 32% spáðu því 6.-10. sæti, 15% 11.-15. sæti, 16% 16.-20. sæti, 3% 21.-25. sæti, 4% 26.-30. sæti, 1% 31.-35. sæti og 7% 36.-39. sæti.

2105 EurovisionSpurt var: „Almennt séð, myndir þú segja að hlutirnir séu að þróast í rétta átt á Íslandi eða eru þeir á rangri braut?“
Svarmöguleikar voru: „1.-5. sæti“, „6.-10. sæti“, „11.-15. sæti“, „16.-20. sæti“, „21.-15. sæti“, „26.-30. sæti“, „31.-35. sæti“, „36.-39. sæti“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 89,7% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum

Konur (57%) reyndust líklegri en karlar (49%) til að spá Daða og Gagnamagninu einu af 10 efstu sætum Eurovision í ár en karlar (9%) reyndust heldur líklegri til að spá þeim einu af þremur neðstu heldur en konur (5%). Bjartsýnin reyndist mest meðal svarenda í yngsta aldurshópi en 59% þeirra spáðu Daða og félögum sæti meðal 10 efstu og einungis 4% spáðu þeim sæti meðal þriggja neðstu. Þá reyndust svarendur af höfuðborgarsvæðinu (56%) líklegri en þau af landsbyggðinni (48%) til að spá Daða og Gagnamagninu einu af 10 efstu sætum keppninnar.

Nokkurn mun mátti sjá á bjartsýni á gengi 10 Years eftir stjórnmálaafstöðu svarenda. Stuðningsfólk Vinstri-grænna (69%), Pírata (68%), Samfylkingarinnar (67%) og Sósíalistaflokks Íslands (62%) reyndust líklegust til að spá Daða og Gagnamagninu einu af 10 efstu sætunum en stuðningsfólk Miðflokksins (35%) og Sjálfstæðisflokksins (44%) reyndist ólíklegast. Bjartsýni á gengi íslenska lagsins reyndist mest meðal stuðningsfólks Sósíalistaflokksins en heil 37% þeirra spáðu íslenska laginu einu af fimm efstu sætunum. Öllu minni bjartsýni var að sjá meðal stuðningsfólks Miðflokksins, en 33% þeirra spáðu Daða og Gagnamagninu einu af þremur neðstu sætum keppninnar í ár.

 

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 953 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 7. til 12. maí 2021

Eldri kannanir sama efnis:
2019: Hatara spáð góðu gengi í Ísrael
2018: Skiptar skoðanir um gengi Íslands í Eurovision