Tilveran

|

Nærri fjórðungur heimila er með áskrift að Disney+ og um þrjú af hverjum fjórum hafa áskrift að Netflix. Sjónvarp Símans Premium stendur sterkast meðal innlendra sjónvarps- og streymisþjónusta og er að finna á nærri helmingi allra heimila en Stöð 2 fylgir næst á eftir á rúmum fjórðungi heimila. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var í febrúar 2021.

Alls svöruðu 76% svarenda að þeir sjálfir eða annar einstaklingur á heimili þeirra væru með áskrift að Netflix, 44% sögðu áskrift að Sjónvarpi Símans Premium vera að finna á heimilum sínum, 27% Stöð 2, 25% Símann Sport (enska boltann), 24% Disney+, 23% Stöð 2 + (áður Stöð 2 Maraþon), 14% Stöð 2 Sport, 14% Viaplay, 13% Amazon Prime, 5% Apple TV+, 5% YouTube Premium og 3% Hulu. Þá kváðust 5% vera með áskrift af öðrum streymis- eða sjónvarpsþjónustum heldur en þeim sem áður voru nefndar en 7% sögðu engan á sínum heimilum vera með áskriftir að slíkum þjónustum.

2102 Áhyggjur1Spurt var: „Ert þú eða einhver á þínu heimili með áskrift að einni eða fleiri af eftirfarandi sjónvarps- og streymisþjónustum?“
Svarmöguleikar voru: „Netflix“, „Sjónvarp Símans Premium“, „Stöð 2“, „Síminn Sport (enski boltinn)“, „Disney+“, „Stöð 2 + (áður Stöð 2 Maraþon)“,
„Stöð 2 Sport“, „Viaplay“, „Amazon Prime“, „Apple TV+“, „YouTube Premium“, „Hulu“, „HBO“, „ESPN“, „Sling TV“, „Peacock“,
„Aðra þjónustu, hverja?“, „Nei, enginn á mínu heimili greiðir fyrir slíkar þjónustur“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 99,5% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum

Nokkurn mun var að sjá á áskriftum að sjónvarps- og streymisþjónustum eftir aldri. Svarendur 18-29 ára (92%) og þeir 30-49 ára (88%) reyndust líklegri en eldri svarendur til að segja áskrift að Netflix tiltæka á sínu heimili en svarendur 18-29 ára reyndust einnig líklegastir til að segjast áskrift að Disney+ (43%) vera að finna á heimilum sínum. Aðgengi að Sjónvarpi Símans Premium jókst með auknum aldri svarenda en 51% svarenda 50-67 ára og 50% þeirra 68 ára og eldri kváðu áskrift að þjónustunni vera til staðar á heimilum sínum. Þá reyndust svarendur á aldrinum 50-67 ára líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segja áskriftir að Stöð 2 (40%) og Stöð 2 Sport (21%) vera til staðar á sínum heimilum.

Svarendur af höfuðborgarsvæðinu reyndust líklegri til að segja áskriftir að Netflix (81%) og Símanum Sport (29%) vera að finna á heimilum sínum heldur en þau af landsbyggðinni (66% Netflix; 19% Síminn Sport). Landsbyggðarbúar reyndust aftur á móti líklegri til að segja áskriftir að Sjónvarpi Símans Premium (57%) og Stöð 2 (33%) vera að finna á sínum heimilum heldur en höfuðborgarbúar (37% Sjónvarp Símans Premium; 23% Stöð 2). Lítinn mun var að sjá eftir kyni svarenda, utan þess að karlar (33%) reyndust líklegri en konur (18%) til að segja áskrift að Símanum Sport vera til staðar á heimilum sínum.

2102 Áhyggjur x1

Aðgengi að sjónvarps- og streymisveitum reyndist nokkuð breytilegt eftir stjórnmálaskoðunum svarenda. Aðgengi að Netflix reyndist mest meðal stuðningsfólks Viðreisnar (92%), Pírata (83%) og Samfylkingarinnar (81%) en minnst meðal stuðningsfólks Miðflokksins (61%) og Flokks fólksins (66%). Stuðningsfólk Framsóknar (64%), Flokks fólksins (56%) og Sjálfstæðisflokksins (54%) reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segja einhvern á heimili sínu með áskrift að Sjónvarpi Símans Premium en stuðningsfólk Vinstri-grænna (29%) og Pírata (25%) ólíklegast. Þá reyndist stuðningsfólk Viðreisnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar líklegast allra til að segja einhvern á heimili sínu hafa áskrift að Stöð 2 (ásamt stuðningsfólki Flokks fólksins), Símanum Sport (ásamt stuðningsfólki Miðflokksins), Stöð 2 + og Stöð 2 Sport en stuðningsfólk Pírata (35%) og Framsóknar (31%) var líklegast til að segja áskrift að Disney+ að finna á sínum heimilum.

2103 Bóluefni x2

 

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 915 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 13. til 18. janúar 2021