Dægurmál

|

Áramótaskaupið 2020 var það besta sem sést hefur yfir síðasta áratug að mati landsmanna en 85% þátttakenda í könnun MMR sögðu að þeim hafi þótt Áramótaskaupið gott. Töldu 64% svarenda Skaupið 2020 hafa verið mjög gott, 21% sögðu það frekar gott, 9% bæði og, 3% frekar slakt og 3% mjög slakt.

Þetta er að sjálfsögðu ekki í fyrsta skiptið sem yfirgnæfandi gleði ríkir í kjölfar Áramótaskaupsins en mikil ánægja mældist einnig árin 2013 (81% ánægðir) og 2017 (76% ánægðir). Þó hefur Skaupið ekki verið með öllu óbrigðult eins og sést á mælingum árana 2012 og 2014 þegar 33% og 35% landsmanna fannst Skaupið gott.

1901 SkaupiðSpurt var: „Hvernig fannst þér Áramótaskaupið 2020?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög slakt“, „Frekar slakt“, „Bæði og“, „Frekar gott“, „Mjög gott“, „Ég horfði ekki á áramótaskaupið“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 98,9% afstöðu til spurningarinnar.
 

Mikil ánægja þvert á lýðfræðihópa

Skaupið féll sérlega vel í kramið hjá kvenkynssvarendum en 89% kvenna kváðu Skaupið hafa verið frekar eða mjög gott, samanborið við 81% karla. Ánægja mældist meiri meðal svarenda 30 ára og eldri (87% 30-49 ára; 86% 50 ára og eldri) heldur en meðal þeirra undir þrítugu (79%) en svarendur 18-29 ára reyndust líklegastir allra aldurshópa til að segjast á báðum áttum hvað gæði Skaupsins varðar (14% bæði og). Lítill munur reyndist á afstöðu eftir búsetu svarenda.

1901 Skaupið x1

Þá mældist ánægja almennt nokkuð há þvert á stuðning við stjórnmálaflokka, sem má mögulega taka til marks um hversu kærkomið ópólitískt Skaup hefur verið fyrir landann á tímum Covid faraldursins. Mest mældist ánægja meðal stuðningsfólks Vinstri grænna en 94% þeirra kváðu Skaupið hafa verið frekar eða mjög gott, sem og 88% stuðningsfólks Samfylkingarinnar og 87% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins. Minnst mældist ánægja meðal stuðningsfólks Miðflokksins en 73% þeirra kváðu Skaupið hafa verið gott og 26% sögðu það hafa verið frekar eða mjög slakt.

1901 Skaupið x2

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 951 einstaklingur
Dagsetning framkvæmdar: 13. til 18. janúar 2021

Eldri kannanir sama efnis:
2019: Skaupið þótti gott
2018: Ánægja með Áramótaskaupið 2017
2015: Lítil ánægja með Áramótaskaupið 2014
2014: Mikil ánægja með Áramótaskaupsið 2013
2013: Minni ánægja með Skaupið í ár en í fyrra
2012: Flestir ánægðir með Skaupið