Jólahefðir Matarvenjur

|

Enn fækkar þeim sem hyggjast borða hangikjöt á jóladag en vinsældir annars lambakjöts, grænmetisfæðis og nautakjöts halda áfram að aukast. Þetta kemur fram í jólakönnun MMR sem framkvæmd var dagana 10.-16. desember 2020.

Alls kváðust 65% landsmanna ætla að borða hangikjöt sem aðalrétt á jóladag en hlutfall þeirra hefur lækkað um 8 prósentustig frá upphafi mælinga. 8% kváðust ætla að gæða sér á hamborgarahrygg, 5% á lambakjöti öðru en hangikjöti, 5% á grænmetisfæði, 4% á nautakjöti, 3% á kalkún og 11% svarenda kváðust munu borða annað en ofantalið.

1912 JóladagurSpurt var: „Hvað er líklegast að þú munir borða sem aðalrétt á jóladag?“
Svarmöguleikar voru: Fiskur/sjávarfang, gæs, grænmetisfæði, hangikjöt, hamborgarhryggur, hreindýrakjöt, kalkúnn, kjúklingur,
lambakjöt (annað en hangikjöt), nautakjöt, rjúpur, svínakjöt (annað en hamborgarhryggur), önd, annað kjöt, annað og veit ekki/vil ekki svara.
Svarhlutfall var 91,6%.

Munur eftir lýðfræðihópum

Vinsældir hangikjöts reyndust mestar meðal svarenda 50 ára og eldri (80%) og fóru þær minnkandi með lækkandi aldri svarenda. Svarendur 18-29 ára voru líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast ætla að gæða sér á hamborgarhrygg á jóladag (12%) en svarendur 50-67 ára ólíklegastir (5%). Vinsældir grænmetisfæðis reyndust einnig mestar meðal svarenda í yngsta aldurshópnum (13%) en hlutfall svarenda 18-29 ára sem kváðust ætla að borða grænmetisfæði í aðalrétt jókst um 5 prósentustig frá könnun síðasta árs. Hlutfall þeirra sem kváðust  ætla að gæða sér á grænmetisfæði á jóladag fór minnkandi með auknum aldri en enginn svarandi elsta aldurshópsins kvaðst ætla að borða grænmetisfæði sem aðalrétt á jóladag. Þá voru svarendur á aldrinum 30-49 ára (18%) líklegastir allra aldurshópa til að segjast ætla að gæða sér á öðru en því sem hér er tilgreint en svarendur 68 ára og eldri (1%) ólíklegastir.

Svarendur af landsbyggðinni (71%) reyndust líklegri en þau af höfuðborgarsvæðinu (62%) til að segjast ætla að gæða sér á hangikjöti á jóladag. Íbúar höfuðborgarsvæðisins reyndust aftur á móti líklegri til að segjast munu borða grænmetisfæði (7%), nautakjöt (5%) eða kalkún (4%) heldur en landsbyggðarbúar (1% grænmetisfæði; 2% nautakjöt; 1% kalkún).

Karlar (9%) reyndust líklegri heldur en konur (6%) til að segjast ætla að gæða sér á hamborgarahrygg á jóladag. Konur (7%) voru hins vegar líklegri til að segjast ætla að borða grænmetisfæði heldur en karlar (2%).1912 Jóladagur x

Stuðningsfólk Framsóknarflokksins (80%) og Miðflokksins (79%) reyndist líklegast allra til að segjast ætla að gæða sér á hangikjöti í aðalrétt en stuðningsfólk Pírata (56%) og Samfylkingarinnar (57%) ólíklegast. Stuðningsfólk Pírata (14%) reyndist líklegast til að hyggja á að borða grænmetisfæði á jóladag en stuðningsfólk Framsóknarflokksins (0%) og Miðflokksins (0%) ólíklegast. Þá reyndist stuðningsfólk Pírata einnig líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast ætla að gæða sér á hamborgarhrygg (10%) á jóladag og stuðningsfólk Samfylkingarinnar reyndist líklegast til að segjast ætla að borða nautakjöt (10%) eða kalkún (7%).

1912 Jóladagur x2

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 947 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 10.-16. desember 2020

Eldri kannanir sama efnis:
2019 desember: Eldri kynslóðir halda fast í hangikjötshefðina
2018 desember: Dregur úr hangikjötsneyslu á jóladag
2017 desember: Hangikjötið á jóladag klassík
2016 desember: Vísbendingar um minnkandi vinsældir hangikjötshefðarinnar
2015 desember: Íslendingar ríghalda í hangikjötshefðina
2014 desember: 70% Íslendinga borða hangikjöt á jóladag
2013 desember: Flestir ætla að borða hangikjöt á jóladag
2012 desember: Flestir ætla að borða hangikjöt sem aðalrétt á jóladag
2011 desember: Þrír af hverjum fjórum borða hangikjöt á jóladag
2010 desember: Íslendingar halda fast í hefðir í jólamat á jólum