Jólahefðir Matarvenjur

|

Vinsældir hamborgarhryggsins haldast nær óbreyttar milli ára en tæplega helmingur landsmanna (47%) hyggst gæða sér á hátíðarréttinum hefðbundna á aðfangadagskvöld. Lambakjöt annað en hangikjöt (11%) situr í öðru sæti mælinga líkt og í fyrra en færri segjast nú ætla að borða rjúpu (6%) heldur en áður. Þá halda vinsældir grænmetisfæðis áfram að aukast, sér í lagi meðal yngstu svarenda. Þetta kemur fram í nýrri jólakönnun MMR sem framkvæmd var dagana 10.-16. desember 2020.

Þó að vinsældir hamborgarhryggsins hafi dregist saman um 6 prósentustig frá því að mælingar MMR á matarvenjum landans hófust árið 2010 hefur hlutfall þeirra sem sögðust ætla að leggja hann sér til munns á aðfangadagskvöld haldist nokkuð stöðugt yfir síðustu fimm árin. Vinsældir rjúpunnar hafa einnig dregist saman frá því að mælingar hófust og voru nú 4 prósentustigum færri sem sögðust ætla að fá sér rjúpu samanborið við aðfangadag 2010. Hlutfall þeirra sem sögðust ætla að snæða grænmetisrétt heldur þó jafnt og þétt áfram að aukast og telur nú 5% landsmanna, samanborið við einungis 1% við upphaf mælinga.

1912 AðfangadagurSpurt var: Hvað er líklegast að þú munir borða sem aðalrétt á aðfangadagskvöld?
Svarmöguleikar voru: Fiskur/sjávarfang, gæs, grænmetisfæði, hangikjöt, hamborgarhryggur, hreindýrakjöt, kalkúnn, kjúklingur,
lambakjöt (annað en hangikjöt)*, nautakjöt, rjúpur, svínakjöt (annað en hamborgarhryggur)**, önd, annað kjöt, annað og veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 96,2% afstöðu til spurningarinnar.

Munur eftir lýðfræðihópum

Grænmetisfæðið á líkt og áður meira upp á pallborðið hjá yngri svarendum heldur en þeim eldri. Alls kváðust 13% svarenda á aldrinum 18-29 ára ætla að borða grænmetisfæði á aðfangadagskvöld og fór hlutfallið minnkandi með auknum aldri en athygli vekur að enginn svarenda 68 ára og eldri og einungis 1% þeirra 50-67 ára kvaðst ætla að halda aðfangadag hátíðlegan með grænmetisfæði. Svarendur elsta aldurshópsins reyndust einnig ólíklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast ætla að snæða rjúpu (4%) á aðfangadagskvöld en reyndust líklegust til að segjast ætla að borða lambakjöt annað en hangikjöt (14%) eða aðra rétti en þá sem hér eru taldir upp (24%).

Svarendur af landsbyggðinni reyndust öllu líklegri til að segjast munu borða lambakjöt annað en hangikjöt (18%) á aðfangadag heldur en þau á höfuðborgarsvæðinu (7%). Íbúar höfuðborgarsvæðisins reyndust hins vegar líklegri til að segjast ætla að borða grænmetisfæði (7%) eða nautakjöt (6%) heldur en þau af landsbyggðinni (1% grænmetisfæði; 1% nautakjöt).

Þá reyndust konur (7%) líklegri en karlar (3%) til að segjast ætla að borða grænmetisfæði á aðfangadagskvöld.

1912 Aðfangadagur x

Stuðningsfólk Miðflokksins (60%) reyndist líkt og í fyrra líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast ætla að borða hamborgarhrygg á aðfangadag en stuðningsfólk Framsóknarflokksins (31%) ólíklegast. Stuðningsfólk Framsóknarflokksins reyndist hins vegar líklegast allra til að segjast ætla að gæða sér á lambakjöti öðru en hangikjöti (21%) eða rjúpu (13%) á aðfangadagskvöld en athygli vekur að stuðningsfólk Pírata (0%) kvaðst ekki ætla að snæða rjúpu þetta árið. Stuðningsfólk Pírata (12%) reyndist hins vegar, ásamt stuðningsfólki Viðreisnar (14%), líklegast til að segjast ætla að borða kalkún í ár. Þá var stuðningsfólk Pírata einnig líklegast allra til að segjast ætla að borða grænmetisfæði (15%) eða nautakjöt (9%) á aðfangadagskvöld en stuðningsfólk Framsóknarflokksins (0% grænmetisfæði; 0% nautakjöt) og Miðflokksins ólíklegast (0% grænmetisfæði; 2% nautakjöt).

 

1912 Aðfangadagur x2

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 947 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 10.-16. desember 2020

Eldri kannanir sama efnis:
2019 desember: Hamborgarhryggurinn vinsælastur en neysla grænmetisfæðis eykst
2018 desember: Hamborgarhryggshefðin sterk á aðfangadag
2017 desember: Margir gæða sér á hamborgarhrygg
2016 desember: Hamborgarhryggur vinsæll á aðfangadag
2015 desember: Matarhefðir ríkjandi á aðfangadag meðal Íslendinga
2014 desember: Helmingur Íslendinga borðar hamborgarhrygg á aðfangadag
2013 desember: Flestir borða hamborgarhrygg á aðfangadag
2012 desember: Meirihluti ætlar að snæða hamborgarhrygg á aðfangadag
2011 desember: Hamborgarhryggur vinsælastur á aðfangadag
2010 desember: Íslendingar halda fast í hefðir í jólamat á jólum