Jólahefðir

|

Hæg þróun landsmanna frá lifandi jólatrjám yfir í gervitré heldur áfram þetta árið en nærri tveir af hverjum þremur Íslendingum segjast nú ætla að hafa gervijólatré á sínu heimili þessi jólin. Mögulega hefur Covid-skammdegi ársins áhrif á skreytingarætlanir landans í ár en fleiri hyggjast setja upp jólatré nú heldur en í könnun síðasta árs.

Alls kváðust 58% landsmanna ætla að setja upp gervitré yfir hátíðarnar en hlutfallið hefur aukist hægt og örugglega frá því að mælingar MMR á jólahaldi landsmanna hófust árið 2010. Hlutfall þeirra sem kváðust ætla að setja upp lifandi tré hefur minnkað um 14 prósentustig frá desember 2010 og mældist nú 28%. Þó svo að hlutfall þeirra sem hyggjast ekki ætla að setja upp jólatré minnki á milli ára hefur það þó aukist yfir síðasta áratug en 14% segjast ekki ætla að setja upp tré þetta árið, samanborið við 9% í könnun ársins 2010.

1912 JólatréSpurt var: „Verður jólatré á þínu heimili í ár?“.
Svarmöguleikar voru: Já - lifandi tré, já – gervitré, nei og veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 96,7% afstöðu til spurningarinnar.

 

Munur eftir lýðfræðihópum
Líkt og í könnun síðasta árs reyndust konur (61%) líklegri en karlar (54%) til að segjast ætla að vera með gervitré á sínum heimilum um jólin. Karlar (18%) reyndust hins vegar líklegri til að segjast ekki ætla að vera með jólatré heldur en konur (11%).

Svarendur í elsta aldurshópi (68 ára og eldri) reyndust líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast ekki ætla að setja upp jólatré í ár (24%). Svarendur 30-49 ára voru líklegastir til að segjast ætla að setja upp jólatré þetta árið (90%) og reyndust líklegastir allra til að segjast ætla að setja upp gervitré (60%) og lifandi tré (30%).

Þá reyndust landsbyggðarbúar (61%) líklegri til að segjast ætla að vera með gervitré á sínum heimilum heldur en svarendur af höfuðborgarsvæðinu (56%). Íbúar höfuðborgarsvæðisins (16%) reyndust hins vegar líklegri en þau af landsbyggðinni (11%) til að segjast ekki ætla að vera með jólatré í ár.

 

1912 Jólatré x

Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Vinstri-grænna (40%), Framsóknarflokksins (36%) og Samfylkingar (35%) reyndust líklegust til að segjast munu hafa lifandi jólatré í ár en stuðningsfólk Miðflokksins (64%) og Viðreisnar (60%) reyndust líklegust til að segjast ætla að notast við gervitré. Þá reyndist stuðningsfólk Pírata (31%) líklegast til að segjast ekki ætla að hafa jólatré á heimilum sínum í ár.

 

1912 Jólatré x2

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 947 einstaklingar á aldrinum 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 10.-16. desember 2020

Eldri kannanir sama efnis:
2019 desember: Sífellt færri með lifandi jólatré á heimilum sínum
2018 desember: Yfir helmingur heimila með gervijólatré í ár
2017 desember: Fleiri gervitré í stofum landsmanna en lifandi tré
2016 desember: Gervitré vinsælli heldur en lifandi tré
2015 desember: Gervitrén vinsælust meðal Íslendinga
2014 desember: Færri með lifandi jólatré í ár
2012 desember: Vinstri-græn með lifandi jólatré en sjálfstæðis- og framsóknarfólk með gervitré
2011 desember: Mikill meirihluti hefur jólatré á sínu heimili
2010 desember: Fleiri hafa gervijólatré heldur en lifandi tré um jólin