Samfélagsmál COVID-19

|

Þrír af hverjum fjórum Íslendingum segja kaup sín á ferðalögum hafa minnkað í kjölfar útbreiðslu kórónaveirunnar og rúmlega helmingur segir viðskipti sín við skyndibitastaði og aðra veitingastaði hafa minnkað. Þá sagði tæpur fjórðungur að matarkaup sín hafi aukist með útbreiðslu COVID-19 og rúmur þriðjungur sagði kaup sín á hreinlætisvörum hafa aukist. Þetta kemur fram í nýrri kórónavíruskönnun MMR sem var nú gerð í annað sinn.

2004 COVID vörur 1Tölur í myndinni sýna hlutfall af landsmönnum, 18 ára og eldri, af landinu öllu (en ekki hlutfall af þeim sem fyrir keyptu vörur í viðkomandi vöruflokkum).
Spurt var: „Í samanburði við áður en hún hófst, hvaða áhrif hefur útbreiðsla kórónaveirunnar haft á kaup þín á eftirfarandi vöru- eða þjónustuflokkum í dag?“ (atriði A til L birtust í handahófskenndri röð):
A: „Matvörur“, B: „Matvörur í netverslun“, C: „Lyf“, D: „Raftæki“, E: „Skyndibitastaðir“, F: „Veitingastaðir (aðrir en skyndibitastaðir)“,
G: „Húsgögn“, H: „Fatnaður“, I: „Hreinlætisvörur“, J: „Ferðalög“, K: „Læknisþjónusta“ og L: „Áfengi“ .
Svarmöguleikar voru: „Minnkað töluvert“, „Minnkað nokkuð“, „Engin (er eins og áður en útbreiðslan hófst)“, „Aukist nokkuð“, „Aukist töluvert“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 99,0% afstöðu til spurningarinnar.

Alls kváðu 76% svarenda að kaup sín á ferðalögum hafi minnkað nokkuð eða töluvert frá því sem var fyrir útbreiðslu kórónaveirunnar, 55% sögðu viðskipti sín við veitingastaði (aðra en skyndibitastaði) hafi minnkað, 52% sögðu viðskipti við skyndibitastaði hafa minnkað, 35% kaup á fatnaði, 22% húsgögn, 21% læknisþjónusta, 19% raftæki, 19% matvörur, 17% áfengi, 8% matvörur í netverslunum, 7% lyf og 5% kváðu kaup sín á hreinlætisvörum hafa minnkað. Þá kváðu 38% að kaup sín á hreinlætisvörum hafi aukist nokkuð eða töluvert, 24% að kaup á matvörum hafi aukist, 16% matvörur í netverslunum, 9% áfengi, 7% skyndibitastaðir, 5% lyf, 4% raftæki, 4% læknisþjónusta, 3% veitingastaðir (aðrir en skyndibitastaðir), 3% fatnað, 2% húsgögn og 1% sögðu kaup sín á ferðalögum hafa aukist.

Séu niðurstöður könnunarinnar bornar saman við samskonar mælingu frá miðjum mars kemur í ljós að nokkur sígandi varð í breytingum á neysluvenjum í öllum vöruflokkunum. Mestur mældist samdrátturinn milli mars og apríl í kaupum á mat á skyndibitastöðum sem dróst saman um 21 prósentustig - samdráttur sem bættist þá við þann 31% samdrátt sem mældist í mars.

2004 COVID vörur 2

Öllu minni breytingar mældust á milli mánaða hvað varðar fjölda þeirra sem hafði aukið kaup úr tilteknum vöruflokkum. Þó vakti athygli að hlutfall þeirra sem sögðust hafa aukið kaup á matvörum í netverslunum jókst töluvert milli mars og apríl - eða um 7 prósentustig.

2004 COVID vörur 3

 

Munur eftir lýðfræðihópum

Konur reyndust líklegri til að segja kaup sín á fatnaði (43%) og læknisþjónustu (28%) hafa minnkað frá því að útbreiðsla kórónaveirunnar hófst heldur en karlar (27% fatnaður; 15% læknisþjónusta). Svarendur í elsta aldurshópi (68 ára og eldri) reyndust ólíklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segja kaup sín á ferðalögum (63%) og mat á skyndibitastöðum (44%) hafa minnkað. Svarendur 18-29 ára reyndust líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segja kaup sín á læknisþjónustu (24%) hafa minnkað en ólíklegastir til að segja kaup á fatnaði (29%) hafa minnkað. Lítinn mun var að sjá á kauphegðun eftir búsetu en svarendur af höfuðborgarsvæðinu (39%) reyndust þó líklegri en þau af landsbyggðinni (28%) til að segja kaup sín á fatnaði hafa minnkað í kjölfar útbreiðslu kórónaveirunnar.

2004 COVID vörur x1 1

Konur reyndust líklegri en karlar til að segja kaup sín á hreinlætisvörum (43%), matvörum (29%) og matvörum í netverslunum (19%) hafa aukist í kjölfar útbreiðslu kórónaveirunnar en karlar reyndust líklegri til að segja kaup sín á áfengi hafa aukist (10%).

Hlutfall þeirra sem kváðu kaup sín á hreinlætisvörum hafa aukist fór minnkandi með auknum aldri og mældist minnst meðal svarenda 68 ára og eldri (22%) en mest meðal þeirra 18-29 ára (45%). Svarendur í yngsta aldurshópnum reyndust einnig líklegastir til að segja kaup sín á áfengi (14%) og á mat af skyndibitastöðum (13%) hafa aukist en svarendur 30-49 ára reyndust líklegastir til að segja kaup á matvörum (32%) og á matvörum í netverslun (23%) hafa aukist.

Þá reyndust svarendur af landsbyggðinni (43%) líklegri en þeir af höfuðborgarsvæðinu (36%) til að segja kaup sín á hreinlætisvörum hafa aukist en svarendur af höfuðborgarsvæðinu reyndust líklegri til að segja kaup á matvörum (26%), matvörum í netverslunum (19%) og á áfengi (10%) hafa aukist en þau af landsbyggðinni (22% matvörur; 11% matvörur í netverslunum; 5% áfengi).

2004 COVID vörur x1 3

Nokkurn samdrátt var að merkja í kaupum á ferðalögum á meðal allra starfsstétta en hann reyndist þó mestur á meðal stjórnenda og æðstu embættismanna (95%), sérfræðinga (84%) og iðnaðarmanna og annarra sérhæfðra starfsmanna í iðnaði (82%). Þá reyndust þjónustu- og afgreiðslufólk (32%) og þau sem ekki kváðust útivinnandi (27%) líklegust til að segja að kaup á læknisþjónustu hafi minnkað nokkuð eða töluvert frá því að útbreiðsla kórónuveirunnar hófst.

2004 COVID vörur x2 1

Námsmenn (52%), þjónustu- og afgreiðslufólk (47%) og stjórnendur og æðstu embættismenn (41%) reyndust líklegri en svarendur innan annarra starfsstétta til að segja kaup sín á hreinlætisvörum hafa aukist í kjölfar útbreiðslu kórónaveirunnar en bændur og sjómenn (25%) ólíklegastir. Sérfræðingar (31%) og námsmenn (29%) reyndust líklegastir til að segja kaup á matvörum hafa aukist en stjórnendur og æðstu embættismenn reyndust líklegri en aðrir svarendur til að segja kaup á matvörum í netverslunum (24%) og á áfengi (15%) hafa aukist. Þá voru námsmenn (12%) og vélafólk og ófaglærðir (10%) líklegri en svarendur innan annarra starfsstétta til að segja kaup á mat af skyndibitastöðum hafa aukist en bændur og sjómenn (13%) og þeir ekki útivinnandi (8%) líklegastir til að segja að kaup sín á lyfjum hafi aukist með útbreiðslu kórónaveirunnar.

2004 COVID vörur x2 3

Ef litið er til stjórnmálaskoðana svarenda má sjá að stuðningsfólk Vinstri-grænna (87%), Sjálfstæðisflokksins (85%) og Pírata (84%) reyndist líklegast til að segja kaup sín á ferðalögum hafa minnkað, stuðningsfólk Framsóknarflokksins reyndist líklegast til að segja kaup sín á mat af skyndibitastöðum (66%) og öðrum veitingastöðum (69%) hafa minnkað og stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar var líklegast til að segja að kaup sín á fatnaði (Sjálfstæðisflokkur 44%; Viðreisn 42%) og húsgögnum (Viðreisn 30%; Sjálfstæðisflokkur 25%) hafi minnkað. Þá reyndist stuðningsfólk Pírata (24%), Samfylkingarinnar (21%) og Viðreisnar (21%) líklegast til að segja kaup sín á læknisþjónustu hafa minnkað.

2004 COVID vörur x3 1

Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins (50%) og Pírata (44%) reyndist líklegast allra til að segja kaup sín á hreinlætisvörum hafa aukist í kjölfar útbreiðslu kórónaveirunnar. Stuðningsfólk Vinstri-grænna (38%) og Viðreisnar (35%) reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segja kaup sín á matvörum hafa aukist en stuðningsfólk Vinstri grænna (30%) reyndist einnig líklegast til að segja kaup á matvörum í netverslunum hafa aukist. Stuðningsfólk Pírata (23%) og Viðreisnar (15%) reyndist líklegast til að segja kaup sín á áfengi hafa aukist, stuðningsfólk Miðflokksins (13%) og Pírata (12%) var líklegast til að segja að kaup sín á mat af skyndibitastöðum hafa aukist og stuðningsfólk Framsóknarflokksins (8%), Pírata (8%) og Viðreisnar (7%) reyndist líklegra en aðrir til að segja kaup sín á lyfjum hafa aukist sökum útbreiðslu kórónaveirunnar.

2004 COVID vörur x3 3

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 987 einstaklingur
Dagsetning framkvæmdar: 3. til 7. apríl 2020