Jólahefðir

|

Fimmta árið í röð reyndist Kertasníkir hlutskarpastur jólasveinanna þegar kemur að vinsældum en 29% landsmanna, 18 ára og eldri, tilnefndu Kertasníki sem sinn uppáhalds jólavein. Stúfur reyndist næstvinsælastur sem fyrr en saxaði aftur á móti verulega á forskot Kertasníkis og stökk úr 25% stuðningi í 28%. Þegar sagan er skoðuð þá sjáum við að stuðningur við Stúf hefur rokið svona upp áður og má sjá vísbendingar um að vinsældir hans fylgi svolítið þeirri poppmenningu sem er uppi hverju sinni.

Í ár var til að mynda gefin út bók um Stúf ('Stúfur hættir að vera jólasveinn') sem fengið hefur töluverða athygli og Stúfur sjálfur tekið þátt í almannatengslaherferð til að kynna bókina. Stúfur fór líka með himinskautum í vinsældum árið 2017, sama ár og hann var í aðahlutverki í jólalagi Baggalúts og Friðriks Dórs.

Hurðaskellir fylgdi svo á eftir í þriðja sætinu með 11% tilnefninga en röðun þriggja vinsælustu jólasveinanna hefur haldist óbreytt frá því að mælingar hófust árið 2015. Sem fyrr reyndist föruneyti minnst við þá jólasveina sem temja sér að sleikja óhrein matarílát - þ.e. þeirra Askasleikis, Þvörusleikis og Pottaskefils.

 

1912 Jólasveinar heild Spurt var: Hver er þinn uppáhalds jólasveinn?
Svarmöguleikar voru: Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir og ég á engan uppáhalds jólasvein.
Samtals tóku 67,2% afstöðu til spurningarinnar, aðrir kváðust ekki eiga uppáhalds jólasvein.
Hlutfallstölur eru reiknaðar sem hlutfall af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar.

 

Líkt og í mælingum síðasta árs var nokkurn mun að finna á vinsældum jólasveinanna eftir kyni svarenda. Kertasníkir reyndist hið mesta kvennagull líkt og í fyrra en 39% þeirra kváðu hann uppáhalds jólasveininn sinn, samanborið við 18% karla. Kynin reyndust meira sammála um ágæti Stúfs og hlaut hann 32% tilnefninga kvenna og 24% tilnefninga karla sem vinsælasti jólasveinninn. Þá höfðaði ærslagangurinn í Hurðaskelli meira til karla (15%) heldur en kvenna (8%) líkt og fyrri ár. Karlmenn reyndust einnig hrifnari en konur af krækjandi kétbræðrum þetta árið en bæði Bjúgnakrækir (9% karla; 1% kvenna) og Ketkrókur (8% karla; 2% kvenna) nutu meiri stuðnings á meðal karlpeningsins.

1912 Jólasveinar kyn

 

Ljóst er að vinsældir jólasveinanna voru einnig nokkuð breytilegar eftir aldurshópum. Kertasníkir reyndist vinsælli á meðal svarenda 18-29 ára (36%) og 50-67 ára (27%) en Stúfur reyndist vinsælasti jólasveinninn á meðal þeirra 30-49 ára (29%) og 68 ára og eldri (28%). Þá naut Hurðaskellir öllu minni vinsælda á meðal svarenda í yngsta (4%) og elsta aldurshópi (6%) heldur en á meðal þeirra 30-49 ára (14%) og 50-67 ára (17%). Vinsældir Ketkróks fóru vaxandi með auknum aldri (2% 18-29 ára; 8% 68 ára og eldri) og Bjúgnakrækir reyndist vinsælli hjá svarendum 68 ára og eldri (11%) heldur en á meðal svarenda annarra aldurshópa. Pottaskefill, Þvörusleikir og Askasleikir ráku svo lestina á meðal svarenda allra aldurshópa og mega þeir fara að hugsa sinn gang áður en þeir koma aftur niður til mannabyggða

1912 Jólasveinar aldur

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1.014 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 13. til 19. desember 2019

Eldri kannanir sama efnis:
2018 desember: Kertasníkir enn vinsælasti jólasveinninn
2017 desember: Stúfur sækir stíft að Kertasníki
2016 desember: Kertasníkir vinsælasti jólasveinninn
2015 desember: Vinsældir íslensku jólasveinanna