Tilveran

|

Góða veðrið reyndist landsmönnum kærkomið í sumar eftir slælegt síðasta ár en nærri 9 af hverjum tíu (87%) tjáðu ánægju með veðrið í sumar, samanborið við einungis 31% í fyrra. Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 9. - 16. september 2019. Alls kváðust 64% mjög ánægð með veðrið í sumar, 23% kváðust frekar ánægð, 7% frekar óánægð og 7% mjög óánægð.

 

1910 Ánægja 1Veðurkort fengið af vef Landmælinga Íslands

Ánægja með veðrið í sumar reyndist ein sú hæsta yfir áratuginn sem nú er að líða en MMR hefur mælt ánægju með sumarveður frá árinu 2010 og einungis sumrin 2010 og 2016 skiluðu landsmönnum meiri ánægju. Sumarblíðan lagðist sérstaklega vel í íbúa af suðurhluta landsins en 95% Reykjavíkurbúa, 94% þeirra úr nágrenni Reykjavíkur og 93% íbúa Suðurlands kváðust frekar eða mjög ánægð með veðrið í sumar. Þá var ánægjan einnig mikil hjá íbúum Norðvestur- og Vesturlands (86%) en öllu minni hjá þeim af Norðaustur- og Austurlandi (36%). Óhætt er að segja að allnokkur viðsnúningur hafi verið á upplifun landsmanna frá sumrinu 2018 - þá reyndust íbúar Norðaustur- og Austurlands með yfirburðum ánægðastir með sumarveðrið þar sem 82% þeirra kváðust frekar eða mjög ánægðir en hlutfall ánægðra var undir 30% á öllum öðrum landshlutum.

Lítinn mun var hins vegar að sjá á ánægju landsmanna með sumarfríin sín frá fyrri árum en líkt og fyrri ár kvaðst stór meirihluti (88%) frekar eða mjög ánægður með sumarfríið. Áhugavert er að sjá hversu stöðug ánægjan hefur reynst yfir áratuginn en hlutfall ánægðra hefur haldist á bilinu 86% til 92% yfir síðustu 10 ár.

1910 Ánægja 2Spurt var: „Hversu ánægður eða óánægður ertu með eftirfarandi?“ (atriði A til B birtust í tilviljunarkenndri röð): A: „Veðrið á Íslandi í sumar“, B: „Sumarfríið þitt“.
Svarmöguleikar voru: „Mjög ánægð(ur)“, „Frekar ánægð(ur)“, „Frekar óánægð(ur)“, „Mjög óánægð(ur)“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Niðurstöður sýna fjölda þeirra sem tóku afstöðu. Fjöldi þeirra sem tók afstöðu til einstakra spurninga var á bilinu 98,7% (veður) til 87,0% (sumarfrí).
 

Munur eftir lýðfræðihópum

Ef litið er til afstöðu eftir lýðfræðihópum má sjá að það var einna helst búseta svarenda sem hafði áhrif á upplifun af sumarveðrinu. Íbúar Reykjavíkur (75%), nágrennis Reykjavíkur (73%) og Suðurlands (74%) voru líklegust allra til segjast mjög ánægð með veðrið á Íslandi í sumar. Rétt um helmingur íbúa Norðvestur- og Vesturlands (54%) kvaðst mjög ánægður með veðrið en 32% þeirra kvaðst frekar ánægður og reyndist það hærra hlutfall en á öðrum landsvæðum. Þá kváðust einungis 8% íbúa Norðaustur- og Austurlands mjög ánægð með sumarveðrið en heil 27% mjög óánægð og 37% frekar óánægð.

Þá voru svarendur á aldrinum 18-29 ára líklegastir til að segjast ánægðir með veðrið í sumar (90%). Ánægjan minnkaði lítillega með auknum aldri en 84% svarenda 50 ára og eldri kváðust frekar eða mjög ánægðir með sumarveðrið. Lítill munur reyndist á ánægju með veðrið í sumar eftir kyni svarenda.

Öllu meiri munur reyndist á ánægju svarenda með sumarfríin sín eftir aldri en hlutfall þeirra sem kváðust mjög ánægðir var mest á meðal þeirra á aldrinum 50-67 ára (60%) og 68 ára og eldri (57%) en minnst á meðal svarenda yngsta aldurshópsins (40%). Þá voru svarendur elsta aldurshópsins líklegastir til að segjast mjög óánægðir með sumarfríið (12%) en svarendur 18-29 ára ólíklegastir (4%).

Ánægja með sumarfríið var minnst á meðal þeirra sem búsettir voru á Norðaustur- og Austurlandi en 40% þeirra kváðust mjög ánægðir, samanborið við 53% þeirra af Suðurlandi og 52% af Norðvestur- og Vesturlandi. Þá kváðust 10% svarenda af Norðaustur- og Austurlandi mjög óánægðir með sumarfríið en einungis 4% Reykvíkinga og 5% þeirra úr nágrenni Reykjavíkur. Lítill munur var á ánægju með sumarfríið eftir kyni svarenda.

 

1910 Ánægja x1

 

Eldri kannanir sama efnis:

MMR könnun 2018: Sumarið sem hvarf
MMR könnun 2017: Íslendingar í ánægðari kantinum með sumarfríið
MMR könnun 2016: Besta sumar síðan 2010
MMR könnun 2015: Þjóðin frekar ánægð með lífið og tilveruna
MMR könnun 2014: Langflestir ánægðir með sumarfríið sitt, vinnuna sína og nágranna
MMR könnun 2014: Mest ánægja með veðrið í sumar á Norðaustur- og Austurlandi
MMR könnun 2013: Töluvert minni ánægja með veðrið í sumar en í fyrra
MMR könnun 2012: Töluvert meiri ánægja með veðrið í sumar en í fyrra
MMR könnun 2011: Færri ánægðir með veðrið
MMR könnun 2010: Ánægju Íslendinga fá takmörk sett

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1045 einstaklingur
Dagsetning framkvæmdar: 9. til 16. september 2019