Stjórnmál

|

Meirihluti landsmanna (62%) taldi að vel hefði tekist til við gerð kjarasamninga VR og Eflingar við Samtök atvinnulífsins. Þetta kom fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11.-13. apríl 2019. Alls kváðust 15% telja að mjög vel hefði tekist til við gerða kjarasamninganna, 47% frekar vel, 26% bæði/og, 8% frekar illa og 4% mjög illa.

1904 Kjarasamningar 1Spurt var: „Hversu vel eða illa finnst þér hafa tekist til við gerð nýrra kjarasamninga VR og Eflingar við Samtök atvinnulífsins?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög illa“, „Frekar illa“, „Bæði/og“, „Frekar vel“, „Mjög vel“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 69,4% afstöðu til spurningarinnar.
 

Í könnuninni var einnig spurt hverjum eigna mætti heiðurinn af því að vel hefði tekist til við gerð samninganna. Kom í ljós að sjö af hverjum tíu (70%) töldu að stéttarfélögunum (VR og/eða Eflingu) bæri að þakka, tæpur helmingur nefndi stjórnvöld (47%) og um þriðjungur nefndi Samtök atvinnulífsins (34%). Þá sögðust 3% ekki eigna neinum af ofangreindum aðilum heiðurinn að því að vel hafi tekist við gerð kjarasamninganna.

1904 Kjarasamningar 2Spurt var: „Hverjum af eftirtöldum aðilum myndir þú helst eigna heiðurinn af því að vel hafi tekist til við gerð nýrra kjarasamninga VR og Eflingar
við Samtök atvinnulífsins? -Veldu allt sem við á“
Svarmöguleikar voru: „VR“, „Eflingu“, „Samtökum atvinnulífsins“, „Stjórnvöldum“, „Engum þessara“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Spurð voru þau sem sögðu frekar eða mjög vel hafa tekist til við gerð nýrra kjarasamninga og tóku 81,2% afstöðu til spurningarinnar.
 

Eldri svarendur jákvæðari gagnvart samningum

Jákvæðni í garð nýrra kjarasamninga jókst með auknum aldri en 75% svarenda 68 ára og eldri og 70% þeirra á aldrinum 50-67 ára sögðu frekar eða mjög vel hafa tekist til við gerð þeirra, samanborið við 56% svarenda 30-49 ára og 50% þeirra í yngsta aldurshópi (18-29 ára). Svarendur í yngsta aldurshópi (8%) og þeir á aldrinum 30-49 ára (5%) reyndust hins vegar líklegri til að segja að mjög illa hafi tekist til við gerð samninganna heldur en svarendur 50 ára og eldri.

Þá reyndust svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu líklegri til að segja að vel hafi tekist til við gerð kjarasamninganna (65%) heldur en þeir á landsbyggðinni (55%).

1904 Kjarasamningar 1 x1

Þegar litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að jákvæðni í garð kjarasamninganna reyndist almennt mikil þvert á stjórnmálaskoðanir. Mest reyndist jákvæðnin á meðal stuðningsfólks Viðreisnar (77%) og Vinstri grænna (76%) en minnst hjá stuðningsfólki Samfylkingar (60%). Þá reyndist stuðningsfólk Miðflokksins (13%) líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segja að illa hafi tekist til við gerð samninganna.

1904 Kjarasamningar 1 x2

Konur líklegri til að eigna stéttarfélögunum heiðurinn

Af þeim sem sögðu að vel hefði tekist til við gerð kjarasamninganna reyndust konur (80%) líklegri en karlar (63%) til að nefna stéttarfélögin sem einn þeirra aðila sem ættu heiðurinn. Karlar reyndust hins vegar líklegri til að eigna stjórnvöldum (49%) og/eða Samtökum atvinnulífsins (37%) heiðurinn heldur en konur (sem nefndu stjórnvöld í 43% tilfella og Samtök atvinnulífsins í 30% tilfella).

Eldri svarendur reyndust líklegri en þeir yngri til að eigna aðkomu stjórnvalda heiðurinn að velgengni við samningagerð en 68% svarenda 68 ára og eldri kváðust telja að stjórnvöld ættu heiðurinn að samningunum, samanborið við 25% þeirra á aldrinum 18-29 ára. Svarendur yngsta aldurshópsins reyndust hins vegar líklegastir til að segja að enginn þeirra samningsaðila sem nefndir voru ættu heiðurinn að samningagerðinni (6%).

Þá reyndust svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu vera líklegri til að segja stéttarfélögin (VR og/eða Eflingu) eiga heiðurinn að velgengni við gerð kjarasamninganna (74%) heldur en þeir á landsbyggðinni (59%).

1904 Kjarasamningar 2 x1

Stuðningsfólk stjórnarandstöðuflokkanna (84%) reyndist líklegra en stuðningsfólk ríkisstjórnarflokkanna (49%) til að eigna stéttarfélögunum (VR og/eða Eflingu) heiðurinn að nýju kjarasamningunum. Þá reyndist stuðningsfólk ríkisstjórnarflokkanna líklegra til að eigna stjórnvöldum (64%) eða Samtökum atvinnulífsins (41%) heiðurinn heldur en stuðningsfólk stjórnarandstöðuflokkanna (30% stjórnvöld; 27% Samtök atvinnulífsins).

1904 Kjarasamningar 2 x3

Hár stuðningur við verkföll áður en samningar tókust

Ljóst er að almennur stuðningur við verkföll var hár áður en samningar náðust á milli VR, Eflingar og Samtaka atvinnulífsins en meirihluti útivinnandi landsmanna kvaðst tilbúinn að ganga til verkfalls til að ná fram samningum. Í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11.-14. mars 2019 sögðust 77% svarenda telja aðstæður á vinnumarkaði vera með þeim hætti að réttlætanlegt væri fyrir ákveðnar starfsstéttir að beita verkföllum til að ýta á um bætt starfskjör, sem var aukning um 3 prósentustig frá könnun nóvembermánaðar í fyrra. Af þeim svarendum sem voru útivinnandi reyndust 61% þeirra tilbúnir til að taka þátt í verkfalli á næstu misserum í þeim tilgangi að bæta starfskjör sín og/eða annarra, sem var aukning um 2 prósentustig frá síðustu könnun.

1903 VerkföllFyrst var spurt: „Telur þú að aðstæður á vinnumarkaði séu með þeim hætti að réttlætanlegt sé fyrir ákveðnar starfsstéttir að beita verkfalli á næstu misserum til að ýta á um bætt starfskjör?“. Svarmöguleikar voru: „Já - verkföll eru réttlætanleg“, „Nei - verkföll eru ekki réttlætanleg“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“. Samtals tóku 88,0% afstöðu til spurningarinnar.
Síðan var spurt: „Værir þú tilbúin(n) að taka þátt í verkfalli á næstu misserum í þeim tilgangi að bæta starfskjör þín og/eða annarra?“. Svarmöguleikar voru: „Já“, „Nei“, „Á ekki við - er ekki á atvinnumarkaði“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Svarfjöldi var 1025 en samtals tóku 88,0% svarenda afstöðu til fyrri spurningarinnar og 83,1% útivinnandi svarenda tóku til afstöður til seinni spurningarinnar.
 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1003 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 11. til 13. apríl 2019

Eldri kannanir sama efnis
Nóvember 2018: MMR könnun: Meirihluti reiðubúinn að fara í verkfall til að bæta kjör