Efnahagsmál

|

Rúmlega tveir af hverjum þremur Íslendingum (70%) telja efnahagsstöðuna á Íslandi í dag vera góða. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 4.-9. apríl 2019. Alls kváðust 8% telja efnahagsstöðuna vera mjög góða, 63% nokkuð góða, 22% frekar slæma og 7% mjög slæma. Þeim sem telja efnahagsstöðu á landinu góða fækkar um 10 prósentustig frá könnun árins 2018 en þá kváðust alls 80% svarenda telja efnahagsstöðuna nokkuð eða mjög góða.

1904 EfnahagurSpurt var: „Hvort telur þú efnahagsstöðuna á Íslandi í dag vera góða eða slæma?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög slæm“, „Frekar slæm“, „Nokkuð góð“, „Mjög góð“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 88,6% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum

Jákvæðni gagnvart efnahagsstöðunni á Íslandi var meiri hjá körlum en 76% þeirra kváðu stöðuna nokkuð eða mjög góða, samanborið við 64% kvenna. Jákvæðni jókst með auknum aldri en 85% svarenda 68 ára og eldri og 84% þeirra á aldrinum 50-67 ára sögðu stöðuna vera góða, samanborið við 65% svarenda 30-49 ára og 54% þeirra í yngsta aldurshópi (18-29 ára). Svarendur í yngsta aldurshópi (13%) og þeir á aldrinum 30-49 ára (11%) reyndust hins vegar líklegri til að segja efnahagsstöðuna mjög slæma heldur en svarendur 50 ára og eldri (1%).

Þá reyndust svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu líklegri til að segja efnahagsstöðuna vera góða (74%) heldur en þeir á landsbyggðinni (64%).

1904 Efnahagur x1

Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks (87%) og Framsóknar (84%) reyndust líklegri en stuðningsfólk annarra flokka til að segja efnahagsstöðuna á Íslandi í dag vera nokkuð eða mjög góða en stuðningsfólk Flokks fólksins (49%) og Samfylkingarinnar (63%) ólíklegast. Þá reyndist stuðningsfólk Flokks fólksins (29%), Pírata (9%) og Viðreisnar (9%) líklegast til að segja efnahagsstöðuna vera mjög slæma.

1904 Efnahagur x2

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 926 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 4. til 9. apríl 2019