Jólahefðir Matarvenjur

|

Hamborgarhryggurinn á enn fastar rætur í hjörtum landsmanna en neysla á lambakjöti á aðfangadag fer minnkandi. Þetta sýna niðurstöður könnunar MMR á matarvenjum landsmanna á aðfangadag sem framkvæmd var dagana 5. til 11. desember 2018. Alls kváðust 49% landsmanna ætla að borða hamborgarhrygg sem aðalrétt á aðfangadagskvöld, 9% kváðust ætla að borða kalkún og önnur 9% lambakjöt (annað en hangikjöt), 8% sögðu rjúpu vera á boðstólnum á sínu heimili, 5% nautakjöt og 4% svínakjöt (annað en hamborgarhrygg). Þá kváðust tæp 16% ætla að gæða sér á annars konar aðalrétt en ofantöldu.

Sjá má aukningu á fjölda þeirra sem kváðust ætla að borða hamborgarhrygg þessi jól en hlutfall þeirra hefur aukist um tæp þrjú prósentustig frá könnun ársins 2017. Þá minnkaði hlutfall þeirra sem kváðust ætla að borða lambakjöt (annað en hangikjöt) um rúm fjögur prósentustig frá síðustu könnun.

1812 AðfangadagurSpurt var: Hvað er líklegast að þú munir borða sem aðalrétt á aðfangadagskvöld?
Svarmöguleikar voru: Fiskur/sjávarfang, gæs, grænmetisfæði, hangikjöt, hamborgarhryggur, hreindýrakjöt, kalkúnn, kjúklingur,
lambakjöt (annað en hangikjöt)*, nautakjöt, rjúpur, svínakjöt (annað en hamborgarhryggur)**, önd, annað kjöt, annað og veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 96,3% afstöðu til spurningarinnar.

Munur milli hópa á því hvað fólk ætlar að borða á aðfangadag

Karlar (10%) reyndust líklegri en konur (5%) til að stefna að því að borða rjúpu yfir jólin en konur voru líklegri til að segjast ætla að borða kalkún (11%) eða lambakjöt annað en hangikjöt (11%) heldur en karlar (7% kalkún og 7% lambakjöt annað en hangikjöt). Landsmenn 68 ára og eldri reyndust ólíklegri en svarendur annarra aldurshópa til að ætla að gæða sér á hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld (43%) en reyndust líklegust til að segjast ætla að borða rjúpu (11%) eða nautakjöt (12%). Hlutfall þeirra sem sagðist ætla að borða annars konar mat en hér er talinn upp minnkaði með auknum aldri og var hæst hjá svarendum 18-29 ára (18%).

Svarendur af landsbyggðinni sögðust líklegri til að borða hamborgarhrygg (56%) eða lambakjöt annað en hangikjöt (13%) á aðfangadagskvöld heldur en þeir af höfuðborgarsvæðinu. Íbúar höfuðborgarsvæðisins kváðust hins vegar líklegri til að gæða sér á kalkún (10%) eða annars konar aðalrétt en þeim sem talinn er upp hér að ofan (19%).

Hamborgarhryggur naut meiri vinsælda sem aðalréttur á aðfangadag á meðal stuðningsfólks Flokks fólksins (55%) heldur en stuðningsfólks annarra flokka. Lambakjöt annað en hangikjöt reyndist einnig vinsælast á meðal stuðningsfólks Flokks fólksins en 24% þeirra kváðust ætla að borða lambakjöt á aðfangadagskvöld. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Pírata sögðust 11% ætla að borða nautakjöt sem aðalrétt á aðfangadag en rjúpur verða hvað helst á borðum hjá stuðningsfólki Vinstri grænna (15%). Þá reyndist stuðningsfólk Miðflokks (25%) líklegra en stuðningsmenn annarra flokka til að ætla að borða annað en ofantalið á aðfangadag.

 

1812 Aðfangadagur x2

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 975 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 5.-11. desember 2018

Eldri kannanir sama efnis:
2017 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á aðfangadag
2016 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á aðfangadag
2015 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á aðfangadag
2014 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á aðfangadag
2013 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á aðfangadag
2012 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á aðfangadag
2011 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á aðfangadag
2010 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á aðfangadag