Jólahefðir

|

Rétt tæplega helmingur landsmanna hyggst senda jólakort í ár en þeim fjölgar sem segjast ætla að senda rafræn kort. Þetta sýnir nýleg könnun MMR sem framkvæmd var dagana 5.-11. desember 2018. Kváðust um 26% landsmanna hyggjast senda jólakort til vina, ættingja og/eða vandamanna eingöngu með bréfpósti í ár, 19% kváðust einungis ætla að senda rafræn jólakort, 5% kváðust ætla að senda kort bæði rafrænt og með bréfpósti en heil 49% kváðust ekki ætla að senda nein jólakort í ár.

Þeim fækkaði því á milli ára sem kváðust ætla að senda jólakort fyrir hátíðarnar líkt og fyrri ár en um 51% sögðust ætla að senda kort þessi jólin, samanborið við 55% í fyrra og 67% árið 2015. Þeim sem kváðst ætla að senda jólakort eingöngu með bréfpósti fækkaði um 7 prósentustig á milli mælinga en þeim sem sögðust ætla að senda rafræn kort fjölgaði hins vegar um sem nemur 6 prósentustigum. Þá fækkaði þeim sem kváðust ætla að senda kort bæði rafrænt og bréfleiðis um 3 prósentustig frá mælingum síðasta árs.

1812 JólakortSpurt var: „Ætlar þú að senda jólakort til vina, ættingja og/eða vandamanna í ár?“
Svarmöguleikar voru: „Sendi með bréfpósti“, „Sendi rafrænt“, „Sendi bæði með bréfpósti og rafrænt“, „Sendi engin jólakort“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 95,6% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir kyni, aldri og búsetu

Karlar (56%) reyndust líklegri en konur (42%) til að segjast ekki ætla að senda nein jólakort í ár en 30% kvenna kvaðst ætla að senda kort með bréfpósti, samanborið við 22% karla. Íslendingar á aldrinum 18-29 ára kváðust heldur ólíklegri til að senda jólakort í ár (49%) heldur en þau 30 ára og eldri. Hlutfall þeirra sem ætla að senda jólakort með bréfpósti jókst með auknum aldri en 41% þeirra 68 ára og eldri kváðust ætla að senda kort með bréfpósti, samanborið við 21% þeirra 18-29 ára. Þá kváðust þau 68 ára og eldri einnig líklegust til að senda jólakort bæði með bréfpósti og rafrænt (13%) en svarendur á aldrinum 30-67 ára voru líklegastir til að segjast einungis ætla að senda rafræn kort í ár.

Þá voru íbúar landsbyggðarinnar (30%) líklegri en þeir á höfuðborgarsvæðinu (24%) til að segjast ætla að senda kort með bréfpósti. Svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu (20%) reyndust hins vegar líklegri en þeir af landsbyggðinni (17%) til að segjast einungis ætla að senda rafræn jólakort.

 

1812 Jólakort x

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 975 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 5. til 11. desember 2018

Eldri kannanir sama efnis:
2017 desember: MMR könnun: Ætla landsmenn að senda jólakort
2016 desember: MMR könnun: Ætla landsmenn að senda jólakort

2015 desember: MMR könnun: Ætla landsmenn að senda jólakort