Tilveran

|

Hundaeign vex lítillega á milli ára en um fjórði hver Íslendingur býr á heimili með hundi. Almennt hefur dýrahald landans þó lítið breyst frá árinu 2015 en hundar og kettir eru enn sem áður vinsælustu gæludýr landsmanna. Þetta sýna niðurstöður könnunar MMR sem framkvæmd var dagana 18.-22. október 2018. Alls sögðu 24% svarenda einn eða fleiri hunda vera á heimili sínu, 16% kváðu ketti til staðar og 7% sögðust halda annars konar gæludýr. Þá kváðu 60% engin gæludýr vera að finna á heimilum sínum.

Ef litið er til niðurstaðna könnunar MMR frá árinu 2015 má sjá að lítil breyting hefur orðið á gæludýrahaldi landans en hundahald hefur aukist um 4 prósentustig frá síðustu mælingum og kattaeign minnkað um 2 prósentustig.

1810 GæludýrSpurt var: „Eru gæludýr (eitt eða fleiri) á þínu heimili?“
Svarmöguleikar voru: „Já - Hundur“, „Já - Köttur“, „Já - Fiskur“, „Já - Fugl“, „Já - Nagdýr (t.d. hamstur, naggrís eða kanína)“,
„Já - Annað gæludýr, hvaða“, „Nei - það eru ekki gæludýra á mínu heimili“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 99,9% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum

Gæludýrahald reyndist algengara hjá körlum (43%) heldur en konum (38%) og var mestan mun að finna í hundahaldi en 26% karla sögðu einn eða fleiri hund að finna á heimili sínu, samanborið við 22% kvenna.

Svarendur í elsta aldurshópi (68 ára og eldri) voru líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast ekki búa með gæludýrum á heimilum sínum (80%) en þau á aldrinum 30-49 ára voru líklegust til að halda gæludýr (47%). Lítinn mun var að sjá á hundahaldi svarenda á aldrinum 18-67 ára en svarendur á aldrinum 30-49 ára voru líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segja ketti (21%) eða annars konar glæludýr (11%) vera að finna á heimilum sínum.

Þá voru svarendur búsettir á landsbyggðinni líklegri til að hafa hund á heimili sínu (29%) en íbúar höfuðborgarsvæðisins (21%).

1810 Gæludýr x1

Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Flokks fólksins (60%), Miðflokks (49%) og Pírata (48%) reyndist líklegast til að segjast hafa gæludýr á heimili sínu en stuðningsfólk Vinstri grænna (23%) og Samfylkingar (32%) ólíklegust. Hundahald reyndist mest hjá stuðningsfólki Flokks fólksins (48%), stuðningsfólk Píratar (24%) var líklegast til að segja ketti að finna á heimilum sínum og stuðningsfólk Miðflokks (20%) reyndist líklegast til að halda annars konar gæludýr.

1810 Gæludýr x2

MMR könnun 2015: Gæludýr á 39% heimila á Íslandi

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 964 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 18. til 22. október 2018