Dægurmál

|

Ekki nema 31% landsmanna sögðust ánægðir með veðrið á Íslandi í sumar. Um umtalsverðan samdrátt á veðuránægju er að ræða á milli ára en 80% landsmanna sögðust ánægðir með veðrið sumarið áður. Á hinn bógin voru 88% sem kváðust ánægð með sumarfríið sitt sem er svipaður fjöldi og í fyrra (þegar 86% sögðust ánægð með sumarfríið sitt).

Þegar ánægja með sumarveðrið er skoðuð eftir landshlutum kemur í ljós að mesta ánægju með sumarveðrið var að finna á Norðaustur- og Austurlandi, þar sem 82% svarenda kváðust frekar eða mjög ánægðir. Þar á eftir voru íbúar Norðvestur- og Vesturlands (29%), nágrennis Reykjavíkur (22%) og Reykjavíkur (21%). Ánægja var minnst á meðal íbúa Suðurlands en einungis 14% þeirra tjáðu ánægju með veðrið í sumar.1809 vedurkort

Landakort fengið af vef Landmælinga Íslands.

Er litið er til afstöðu gagnvart veðurfari á Íslandi á milli ára má sjá að almenn ánægja hefur ekki verið jafn lítil frá því að mælingar MMR hófust árið 2010. Minnst hafði ánægjan áður mælst í ágúst 2013 þegar um 44% svarenda kváðust hafa verið ánægð með sumarveðrið, sem var 13 prósentustigum hærra en í mælingum 2018. Þá vekur athygli að eingöngu 9% sögðust mjög ánægð með veðurfarið í sumar en 33% kváðust mjög óánægð.

Þrátt fyrir mikla sveiflu í ánægju á sumarveðri á milli ára þá hefur ánægja fólks með sumarfríið sitt haldist nokkuð stöðug. Frá því að mælingar hófust árið 2010 hefur ánægja Íslendinga með sumarfríið sitt verið á bilinu 86% til 91%.

1809 vedur01Spurt var: „Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ert þú með eftirfarandi?“ (atriði A til B birtust í tilviljunarkenndri röð). A: „Sumarfríið þitt“, B: „Veðrið á Íslandi í sumar“.
Svarmöguleikar voru: „Mjög ánægð(ur)“, „Frekar ánægð(ur)“, „Frekar óánægð(ur)“, „Mjög óánægð(ur)“, „Á ekki við“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Niðurstöður sýna fjölda þeirra sem tóku afstöðu. Fjöldi þeirra sem tók afstöðu til einstakra spurninga var á bilinu 98,0% (veður) til 86,4% (sumarfrí).

 
 
Munur á afstöðu eftir lýðfræðihópum
Þegar munur á afstöðu eftir lýðfræðihópum er skoðaður má sjá að konur voru ívið neikvæðari en karlar gagnart hinu íslenska sumarveðri. Þannig voru 67% kvenna ánægðar með veðrið í sumar á Íslandi, á móti 73% karla.
Eins mátti sjá að fólk sem búsett var á landsbyggðinni (75%) var ánægðara með sumarveðrið á Íslandi heldur en þeir sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu (67%). Hvað varðar aldur þá kom í ljós að því eldri sem svarendur voru því líklegri voru þeir til að vera ánægðir með sumarveðrið sem og sumarfríið sitt. Þannig voru 65% svarenda í aldurshópum 18-29 ánægðir með sumarveðrið á Íslandi, í samanburði við 83% þeirra sem voru í aldurshópnum 68 ára og eldri.
 
Þegar litið er til afstöðu eftir lýðfræðihópum má sjá að karlar tjáðu meiri ánægju (37%) með sumarveðrið heldur en konur (25%) en um 12% karla sem sögðust mjög ánægðir með veðrið í sumar, samanborið við einungis 7% kvenna. Konur tjáðu hins vegar meiri ánægju með sumarfríin sín (91%) heldur en karlar (84%). Þá jókst ánægja með bæði veðrið í sumar og sumarfrí með auknum aldri en 40% svarenda á aldrinum 68 ára og eldri tjáði ánægju með sumarveðrið, samanborið við einungis 22% svarenda á aldrinum 18-29 ára. Þá kváðust tæp 95% svarenda elsta aldurshópsins ánægð með sumarfrí sitt, samanborið við 80% svarenda yngsta aldurshópsins.
 
Ef litið er til búsetu svarenda má sjá nokkurn mun á ánægju með sumarveðrið eftir landshlutum. Svarendur búsettir á Norðaustur- og Austurlandi tjáðu mesta ánægju með veðrið í sumar eða 82% en 40% þeirra kváðust mjög ánægðir og einungis 6% mjög óánægðir. Ánægjan reyndist öllu minni hjá svarendum af Norðvestur- og vesturlandi (29% ánægðir, 30% mjög óánægðir), nágrenni Reykjavíkur (22% ánægðir, 38% mjög óánægðir) og Reykjavík (20% ánægðir, 38% mjög óánægðir). Þá reyndist ánægjan minnst hjá íbúum Suðurlands (14%) en 41% þeirra kváðust frekar óánægð og 45% mjög óánægð með sumarveðrið á Íslandi.
Lítill munur var á ánægju með sumarfrí eftir landshlutum en ánægja reyndist mest hjá svarendum af Norðvestur- og Vesturlandi (89%) en minnst hjá svarendum af Suðurlandi (82%).
 
1809 vedur02
 
 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 953 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 7. til 12. september 2018

Eldri kannanir sama efnis:
2017 ágúst: MMR könnun á ánægju Íslendinga
2016 ágúst: MMR könnun á ánægju Íslendinga
2015 ágúst: MMR könnun á ánægju Íslendinga
2014 ágúst: MMR könnun á ánægju Íslendinga
2014 ágúst: MMR könnun á ánægju með veðrið
2013 ágúst: MMR könnun á ánægju Íslendinga
2012 september: MMR könnun á ánægju Íslendinga
2011 ágúst: MMR könnun á ánægju Íslendinga