Samfélagsmál Neytendamál

|

Nærri tveir af hverjum þremur Íslendingum sögðust hlynntir banni á einnota plastpokum í verslunum. Þetta sýna niðurstöður könnunar MMR sem fram fór dagana 3. til 10. ágúst 2018. Samtals kváðust 21% svarenda vera andvíg banni á einnota plastpokum, það er 9% mjög andvíg og 12% frekar andvíg. Þá kváðust tæp 21% frekar hlynnt banni og tæp 41% mjög hlynnt eða 61% samtals. Loks kváðust 17% hvorki vera andvíg né fylgjandi banni á einnota plastpokum í verslunum.

1808 PlastpokarSpurt var: „Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) værir þú banni á einnota plastpokum í verslunum?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög andvíg(ur)“, „Frekar andvíg(ur)“, „Hvorki né“, „Frekar hlynnt(ur)“, „Mjög hlynnt(ur)“ og „Veit ekki/ vil ekki svara“.
Samtals tóku 97,7% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum
Konur voru líklegri en karlar til að vera hlynntar banni á einnota plastpokum. 69% kvenna kváðust hlynntar og sögðust 48% kvenna mjög hlynntar en til samanburðar kváðust 54% karla hlynntir banni, 34% þeirra mjög hlynntir. Jafnframt kváðust 26% karla vera andvígir, samanborið við 17% kvenna.

Andstaða við bann á einnota plastpokum jókst í takt við hækkandi aldur. Af þeim á aldrinum 18-29 ára voru 11% andvíg banni, 22% þeirra 30-49 ára, 26% þeirra 50-67 ára og 28% þeirra 68 ára og eldri. Þau á aldrinum 18-29 ára voru líklegust til að vera fylgjandi banni eða 67% en jafnframt reyndust þau líklegri en aðrir aldurshópar til að segjast hvorki hlynnt né andvíg eða 22%.

Af þeim búsettum á höfuðborgarsvæðinu voru 63% hlynnt banni á einnota plastpokum í verslunum, samanborið við 59% þeirra á landsbyggðinni. Þá voru 22% þeirra búsett á landsbyggðinni andvíg, sem og 21% þeirra búsett á höfuðborgarsvæðinu.

Háskólamenntaðir voru líklegri en aðrir til að vera fylgjandi banni. Af þeim sem lokið höfðu háskólamenntun kváðust 67% vera fylgjandi, 60% þeirra með framhaldsskólamenntun og 56% þeirra með grunnskólamenntun. Hlutfall þeirra sem voru mjög andvíg var jafnt yfir öll menntunarstig eða 9%.

Andstaða við plastpokabann reyndist meiri hjá þeim tekjuhæstu en þeim tekjulægri. Af þeim með milljón eða meira í heimilistekjur kváðust 27% vera andvíg plastpokabanni. Þá kváðust 57% þeirra með milljón eða meira í heimilistekjur vera fylgjandi banni, samanborið við 63% þeirra með heimilistekjur undir 400 þúsund krónum.

Af stuðningsfólki Samfylkingarinnar kváðust 71% vera fylgjandi banni en 53% þeirra kváðust mjög fylgjandi. Þá kváðust 69% stuðningsfólks Pírata vera fylgjandi og 64% stuðningsfólks Vinstri grænna. Minni stuðningur var við plastpokabann hjá stuðningsfólki Flokks fólksins, Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins en 43% af stuðningsfólki Flokks fólksins kváðust hlynnt, 47% stuðningsfólks Miðflokksins og 50% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins.

Andstaða við plastpokabann reyndist mest á meðal stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins, kváðust 33% þeirra andvíg en 11% þeirra kváðust mjög andvíg. Þá kváðust 28% stuðningsfólks Viðreisnar og Flokks fólksins andvíg plastpokabanni og 27% stuðningsfólks Framsóknarflokksins.

 

 

1808 Plastpokar x

 

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 957 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 3. ágúst til 10. ágúst 2018