Dægurmál

|

Nær öll íslenska þjóðin er á Facebook (91%) og um tveir af hverjum þremur nota Snapchat (66%) reglulega. Þetta kom í ljós í könnun MMR á samfélagsmiðlanotkun landsmanna sem framkvæmd var dagana 16. til 22. maí 2018. YouTube (65%), Spotify (50%) og Instagram (44%) nutu einnig nokkurra vinsælda á meðal svarenda.

Ef litið er til könnunar MMR á notkun samfélagsmiðla frá maí 2016 má sjá nokkra aukningu á notkun samfélagsmiðla. Mest hefur aukningin verið á notkun Spotify en hún telur um 23 prósentustig yfir tveggja ára tímabil. Einnig má sjá aukningu á notkun Snapchat (16 prósentustig), Instagram (14 prósentustig), Google+ (7 prósentustig), Pinterest (7 prósentustig), YouTube (7 prósentustig) og LinkedIn (3 prósentustig). Marktækan mun var ekki að finna á notkun annarra samfélagsmiðla á milli ára.

1805 Samfélagsmiðlar 1618 v3Spurt var: „Hvaða samfélagsmiðla notar þú reglulega?“
Svarmöguleikar voru: „Facebook“, „Snapchat“, „YouTube“, „Spotify“, „Instagram“, „Google+“, „Pinterest“, „Twitter“, „LinkedIn“, „Reddit“, „Tinder“, „Strava“, „Tumblr“, „Twitch“, „Flickr“, „Grinder“, „Aðrir, hvaða?“, „Enginn ofantalinna“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 99,4% afstöðu til spurningarinnar.
Samanburður á svörum frá maí 2016 og maí 2018. Þátttakendur könnunar í maí 2016 voru 1027 talsins og var svarhlutfallið 94,5%.
 

Munur eftir lýðfræðihópum
Nokkurn mun var að sjá á afstöðu svarenda eftir lýðfræðihópum. Konur voru líklegri heldur en karlar til að segjast nota Facebook (95%), Snapchat (73%) og Instagram (52%) en hærra hlutfall karla heldur en kvenna sagðist nota YouTube (69%) og Spotify (52%). Notkun fimm vinsælustu samfélagsmiðlanna fór minnkandi með auknum aldri en þó var minnstan aldurstengdan mun að sjá í notkun á Facebook, þar sem 78% svarenda elsta aldurshópsins (68 ára og eldri) sögðust nota miðilinn reglulega. Lítinn mun var einnig að sjá á notkun Facebook eftir öðrum lýðfræðibreytum.

Þá sögðust svarendur á höfuðborgarsvæðinu duglegri að nota YouTube (67%), Spotify (54%) og Instagram (47%) heldur en þeir á landsbyggðinni. Hlutfall notenda Snapchat (72%) var mest á meðal þeirra sem lokið höfðu námsferli sínum eftir skyldunám en hlutfall svarenda sem sögðust nota YouTube, Spotify og Instagram reglulega jókst með aukinni menntun. Með tilliti til starfsstétta var notkun Snapchat (76%) mest á meðal þjónustu-, skrifstofufólks og tækna, sérfræðingar voru líklegastir til að nota YouTube (69%) og Spotify (58%) reglulega. Notkun á Instagram var nokkuð álík á milli starfsstétta að undanskyldum bændum, sjó-, iðn-, véla- og verkafólks en einungis 27% þeirra kváðust nota miðilinn reglulega.

Þegar litið var til stjórnmálaskoðana mátti sjá nokkurn breytileika á afstöðu svarenda. Stuðningsfólk Framsóknar- (73%), Mið- (71%) og Sjálfstæðisflokks (69%) voru líklegri en aðrir til að segjast nota Snapchat reglulega en notkun forritsins mældist minnst á meðal stuðningsfólks Samfylkingar (56%). Stuðningsfólk Pírata og Viðreisnar var líklegast til að segjast nota YouTube, Spotify og Instagram reglulega en stuðningsfólk Framsóknarflokks kvaðst minnst allra nota miðlana þrjá. Lítill munur var á notkun Facebook eftir stjórnmálaskoðunum.

1805 Samfélagsmiðlar x v2

Erfitt er að túlka tölur um notkun á Google+ þar sem nokkurs ruglings gætir meðal netnotenda um hver munurinn er á leitarvél Google og samfélagsmiðlinum Google+. Af notkun annarra samfélagsmiðla er vert að nefna að hlutfall kvenna (36%) sem sögðust nota Pinterest reglulega var mun hærra en karla (8%) en karlar sögðust aftur á móti frekar nota Twitter (22%), LinkedIn (10%) og Reddit (14%) heldur en konur. Þá fór notkun miðlanna almennt minnkandi með aldri að undanskilinni notkun á LinkedIn, þar sem notkunin var lítil hjá yngstu (5%) og elstu (2%) svarendum. Notkun Twitter, LinkedIn og Reddit var almennt meiri hjá þeim svarendum sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu heldur en íbúum landsbyggðarinnar. Notkun á Pinterest og LinkedIn jókst með auknu menntunarstigi en notkun á Twitter var einnig mest á meðal háskólamenntaðra (21%). Notkun á Pinterest og Twitter var nokkuð áþekk á meðal stjórnenda og æðstu embættismanna, sérfræðinga og þjónustu-, skrifstofufólks og tækna. LinkedIn notkun var mest á meðal sérfræðinga (19%) og stjórnenda og æðstu embættismanna (18%), sérfræðingar (11%) kváðust mest allra starfsstétta nota Reddit reglulega og regluleg notkun Tinder var mest á meðal þjónustu- skrifstofufólks og tækna (10%). Athygli vekur að notkun þessara samfélagsmiðla, líkt og Snapchat, Spotify og Instagram, var almennt minnst á meðal bænda, sjó-, iðn-, véla og verkafólks.

Líkt og áður var nokkurn mun að sjá á notkun miðlana eftir stjórnmálaskoðunum. Stuðningsfólk Flokks fólksins (30%) kváðust mest nota Pinterest, stuðningsfólk Viðreisnar var líklegast til að segjast nota Twitter (32%) og LinkedIn (23%) reglulega og stuðningsfólk Pírata kvaðst í mestum mæli nota Reddit (28%) og Tinder (10%) reglulega. Stuðningsfólk Framsóknarflokks kvaðst minnst allra nota Pinterest (15%) og Twitter (9%), stuðningsfólk Flokks fólksins var líklegast til að segjast ekki nota LinkedIn (0%) og Reddit (0%) og notkun Tinder var minnst hjá stuðningsfólki Miðflokks (3%).

1805 Samfélagsmiðlar x2 v2

Fréttin var uppfærð þann 11. júlí 2019

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 929 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 16. til 22. maí 2018