Dægurmál

|

Íslenska þjóðin kvaðst klofinn í væntingum sínum um hvort að framlag Íslands myndi komast áfram úr undanúrslitum Eurovision á morgun. Þetta kom fram í könnun MMR sem framkvæmd var skömmu eftir að framlag Íslands var valið í mars síðastliðnum. Af aðspurðum töldu 49% íslenska lagið líklegt áfram til þátttöku á úrslitakvöldinu en 10% sögðust vongóðir um að það myndi hreppa eitt af tíu efstu sætunum. 34% svarenda spáðu hins vegar að lagið, sem er í flutningi Ara Ólafssonar, myndi enda í einu af átta neðstu sætum keppninnar.

0205 EurovisionSpurt var: „Í hvaða sæti heldur þú að framlag Íslands lendi í Eurovision keppninni í ár?“
Stakir svarmöguleikar voru fyrir hvert af sætunum 43 auk „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 87,7% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum
Konur kváðust telja íslenska lagið líklegra til að ná úr undankeppni (54%) en karlar (45%), þó svo að hlutfall þeirra sem töldu framlag Íslands líklegt til að enda í einu af tíu efstu sætunum hafi verið nokkuð jafnt á milli kynja. Karlar voru hins vegar líklegri til að telja að lagið myndi enda í 36. til 43. sæti (39%) heldur en konur (28%). Þegar litið var til aldurs svarenda mátti sjá að mesta bjartsýnin ríkti á meðal svarenda elsta aldurshópsins (68 ára og eldri) en 81% þeirra töldu að Ari Ólafsson myndi öðlast rétt til að flytja lag sitt í annað skipti í úrslitakeppninni í Lissabon. Öllu meiri svartsýni ríkti á meðal landsmanna undir 50 ára aldri, þar sem 44% svarenda á aldrinum 30-49 ára og 36% svarenda á aldrinum 18-29 ára töldu Ara líklegastan til að verma eitt af neðstu sætum undankeppninnar.

Lítinn mun var að sjá á væntingum svarenda eftir búsetu en bjartsýni á velgengni íslenska framlagsins fór minnkandi með auknu menntunarstigi og heimilistekjum svarenda. Þá voru bændur, sjó-, iðn-, véla- og verkafólk (54%) og þeir sem ekki voru útivinnandi (68%) líklegastir til að spá íslenska laginu áframhaldandi þátttöku næstkomandi laugardagskvöld.

Almennt var lítils breytileika að gæta þegar litið var til stjórnmálaskoðana en stuðningsfólk flestra flokka var nokkuð klofið í spá sinni um velgengni íslenska lagsins. Stuðningsfólk Pírata skar sig þar nokkuð úr en 67% töldu að Ari myndi ekki komast áfram til að flytja lag sitt aftur á úrslitakvöldi keppninnar. Mikillar bjartsýni gætti þó hjá stuðningsfólki Flokks fólksins og töldu 73% þeirra að íslenska lagið myndi ná áfram í úrslit keppninnar en fjórðungur þeirra spáði laginu lokastöðu í einu af tíu efstu sætunum. Þó ber að geta að fjöldi svarenda í hópi stuðningsfólks Flokks fólksins var aðeins 23 af þeim 985 sem spurðir voru og gætu niðurstöður þeirra því haft takmarkað forspárgildi.

0205 Eurovision x

 

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 985 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 13. til 19. mars 2018