Samfélagsmál

|

Meirihluti landsmanna segist andvígur því að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana 2. til 12. mars 2018. Tæplega 74% svarenda kváðust andvíg því að heimila sölu á sterku áfengi (meira en 22% áfengisinnihald) í matvöruverslunum, þar af rúm 61% mjög andvíg. Minni andstaða var gegn sölu á léttu áfengi og bjór (minna en 22% áfengisinnihald) en tæp 55% svarenda sögðust andvíg sölu á léttu áfengi og bjór í matvöruverslunum, þar af tæplega 43% mjög andvíg. Stuðningur við leyfi til sölu var rúmlega 15% við sölu á sterku áfengi og tæplega 36% við sölu á léttu áfengi og bjór.

2604 afengissala 1718 bar 3Spurt var: „Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu að leyft verði að selja eftirfarandi flokka áfengis í matvöruverslunum á Íslandi?“
Svarmöguleika voru: „Mjög andvíg(ur)“, „Frekar andvíg(ur)“, „Hvorki hlynnt(ur) né andvíg(ur)“, „Frekar hlynnt(ur)“, „Mjög hlynnt(ur)“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 97,4% afstöðu til spurningarinnar um sterkt áfengi og 97,8% til spurningarinnar um létt áfengi og bjór.
 

Stuðningur við leyfi til sölu á léttu áfengi og bjór í matvöruverslunum hefur aukist lítillega frá skoðanakönnun MMR sem framkvæmd var í febrúar 2017 eða um 3,1%. Andstaða gegn slíkri sölu hefur að sama skapi lækkað um 2%. Nær engar breytingar hafa átt sér stað á afstöðu landsmanna gagnvart sölu á sterku áfengi.

Munur eftir lýðfræðihópum - sala á sterku áfengi
Andstaða gegn sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum jókst með auknum aldri. Af yngsta aldurshópnum (18-29 ára) kváðust 56% vera andvíg sölu á sterku áfengi, samanborið við 92% í elsta aldurshópnum (68 ára og eldri). Andstaða reyndist nokkuð minni hjá körlum (67%) heldur en konum (81%) og lýstu karlar (20%) frekar stuðningi við leyfi til sölu á sterku áfengi heldur en konur (11%). Þá bar minna á andstöðu á meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins (72%) heldur en þeirra sem búa á landsbyggðinni (77%). Lítill munur var á afstöðu með tilliti til menntunar svarenda.

Nokkur munur var á afstöðu svarenda sé horft til stjórnmálaskoðana. Stuðningsfólk Framsóknarflokks var nær algjörlega á móti sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum (96%) en þar af var stór meirihluti mjög andvígur (91%). Mikla andstöðu var einnig að finna hjá stuðningsfólki Flokks fólksins (85%), Vinstri grænna (85%) og Samfylkingar (82%). Mestan stuðning við leyfi til sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum mátti finna hjá stuðningsfólki Viðreisnar (36%), Pírata (38%) og Sjálfstæðisflokks (22%).

 

2604 afengissala sterkt x

Munur eftir lýðfræðihópum - sala á léttu áfengi og bjór
Andstaða við sölu á léttu áfengi og bjór í matvöruverslunum var nokkuð minni en andstaða gegn sölu á sterku áfengi. Svarendur yngsta aldurshópsins (18-29 ára) sögðust voru í meira mæli hlynnt heimilun sölu á léttu áfengi og bjór (52%) heldur en andstæð henni (35%). Andstaða jókst með auknum aldri en 84% svarenda elsta aldurshópsins (68 ára og eldri) kváðust andvíg sölu á léttu áfengi og bjór í matvöruverslunum, þar af 70% mjög andvíg. Konur (62%) kváðust frekar andstæðar heldur en karlar (49%) og voru karlar (42%) líklegri til að styðja slíka sölu heldur en konur (29%). Andstaða var minni meðal svarenda með búsetu á höfuðborgarsvæðinu (52%) heldur en þeirra á landsbyggðinni (59%). Lítinn mun var að finna á afstöðu ef litið var til menntunar svarenda.

Mun var að finna á afstöðu svarenda með tilliti til stjórnmálaskoðana. Stuðningsfólk Framsóknarflokks sýndi mesta andstöðu gegn sölu á léttu áfengi og bjór í matvöruverslunum (87%) en þar af var meirihluti mjög andvígur (68%). Stuðningsfólk Flokks fólksins (71%), Vinstri grænna (62%) og Samfylkingar (62%) greindu einnig frá andstöðu við slíka sölu. Mestan stuðning við heimilun sölu á léttu áfengi og bjór í matvöruverslunum mátti finna hjá stuðningsfólki Viðreisnar (61%), Pírata (61%) og Sjálfstæðisflokks (49%) en athygli vekur að tæplega helmingur stuðningsfólks bæði Pírata (48%) og Viðreisnar (48%) sögðust mjög hlynnt heimilun.

2604 afengissala lett x

 

MMR könnun 2017: Andstaða við áfengissölu í matvöruverslunum

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 995 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 2. til 12. mars 2018