Samfélagsmál

|

Sléttur helmingur landsmanna segjast fylgjandi banni á umskurði ungra drengja samkvæmt nýrri könnun MMR sem lauk í dag. Landsmenn virðast hafa nokkuð sterkar skoðanir á málinu og sést meðal annars helst á því að 68% svarenda höfðu algerlega öndverða skoðun á málinu, það er sögðu að þeir væru annað hvort mjög fylgjandi banninu (39%) eða sögðust mjög andvíg umskurnarbanni (29%). Þá voru 11% sem sögðust banninu frekar fylgjandi, 8% sögðust banninu frekar andvíg og 13% svarenda skipuðu sér á hlutleysisbekk í málinu og kváðust hvorki vera fylgjandi né andvíg banni við umskurði ungra drengja. Þá vekur athygli að öndverð afstaða til málsins virðist ganga þvert á flesta stjórnamálaflokka þannig að segja má að þjóðin sé pólitískt séð klofin í málinu.

1802 umskurdur2Spurt var: Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) banni við umskurði ungra drengja?
Svarmöguleikar voru: Mjög andvíg(ur), Frekar andvíg(ur), Hvorki né, Frekar fylgjandi, Mjög fylgjandi, Veit ekki og Vil ekki svara.
Samtals tóku 92,2% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum
Stuðningur við bann reyndist meiri með lækkandi aldri. Af yngsta aldurshópnum (18-29 ára) sögðust 57% vera fylgjandi banni samanborið við 34% í elsta aldurshópnum (68 ára og eldri). Að sama skapi voru 24% ynsta aldurshópsins sem sögðust vera andvíg banni samanborið við 51% elsta aldurshópsins.

Sé horft til stjórnmálaskoðana má sjá að afstaða málsins var mjög skipt í öllum flokkum. Mestur stuðningur við bann reyndist meðal stuðningsfólks Pírata (59%), Vinstri grænna (55%) og Framsóknarflokks (54%). Stuðningur við bann var aftur á móti minnstur meðal stuðningsfólks Miðflokks (44%) og Sjálfstæðisflokks (42%) - þessir tveir flokkar skáru sig jafnframt úr að því leitinu til að þar skiptist stuðningsfólk nánast jafnt í tvær fylkingar í afstöðu sinni til málsins. Í öðrum flokkum reyndist heldur meiri stuðningur við bann við umskurði ungra drengja. Þvert á flokka sveiflaðist andstaða við bann við umskurni á bilinu 45% (Miðflokkurinn) til 28% (Vinstri græn).

 

1802 umskurdur x3

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 906 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 22. febrúar til 1. mars 2018