Samgöngur

|

Samkvæmt nýrri bílakaupakönnun MMR hefur fjöldi þeirra sem kjósa helst að eignast rafmagnsbíl aukist verulega á síðustu árum. Samkvæmt könnuninni voru 42% þeirra sem hugðust kaupa sér nýjan bíl (ekki notaðan) innan þriggja ára sem vildu helst að bíllinn væri knúinn rafmagni sem aðal orkugjafa. Þetta er ríflega tvöföldun frá árinu 2015, þegar 20% þeirra sem íhuguðu kaup á nýjum bíl sögðust helst vilja rafmagn sem aðal orkugjafa. Á sama tíma hefur eftirspurn eftir diesel knúnum bifreiðum minnkað stórkostlega og fellur úr 47% í 28% milli ára.

Bílakaup mynd1.4Spurt var: Ef þú værir að kaupa þér bíl í dag, hvaða orkugjafi yrði líklegast fyrir valinu sem aðal orkugjafi bílsins?
Spurð voru : Þau sem kváðust í fyrri spurningum myndu íhuga kaup á nýjum (ekki notuðum) bíl innan 3 ára.
Svarmöguleikar voru: Rafmagn, Dísel, Bensín, Metan og Veit ekki/ vil ekki svara. Samtals tóku 93,6% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum
Áhugi fyrir rafknúnum bílum mældist meiri meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins (46%) en þeirra sem bjuggu á landsbyggðinni (34%). Þá reyndist rafmagnið höfða frekar til þeirra sem sem voru eldri, höfðu hærri tekjur og með lengri skólagöngu að baki. Breytileiki í afstöðu til aðal orkugjafa fyrir nýjan bíl reyndist hins vegar hvað mestur þegar horft var til a stjórnmálaskoðana fólks. Þannig voru ekki nema 15% þeirra sem studdu Flokk fólksins sem kusu helst rafknúinn bíl en á móti sögðust yfir 60% stuðningsfólks Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna helst kjósa rafmagn sem aðal orkugjafa fyrir nýjan bíl.

Bílakaup mynd2.5

Um bílakaupakönnun MMR:
Markmið Bílakaupakönnunar MMR er að meta markaðslega stöðu íslenskra bílaumboða og vörumerkja þeirra með því að kanna vörumerkjavitund, ímynd umboða, kaupáform neytenda og helstu samkeppnisaðila með rýni í valsett neytenda. Könnuninn í heild telur 25 mæld atriði og er endurtekin árlega. Skýrsla með niðurstöðum könnunarinnar í heild er fáanleg hjá MMR (nánari upplýsingar í síma 578 5600 eða á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.).

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Fjöldi svarenda (alls): 1594 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 9. til 17. janúar 2018