Jólahefðir

|

MMR stóð í ár, líkt og undanfarin tvö ár, fyrir vinsældakosningu íslensku jólasveinanna. Kertasníkir reyndist hlutskarpastur þriðja árið í röð og heldur titlinum "Uppáhalds jólasveinn Íslendinga" með 30% tilnefninga. Sú breyting hefur aftur orðið frá fyrra ári að sérlegum aðdáendum Stúfs hefur fjölgað nokkuð, úr 24% í 29% og munar því ekki nema einu prósentustigi á vinsældum bræðranna tveggja. Hurðaskellir var líkt og fyrri ár í þriðja sæti með 13% tilnefninga.

 

Jólasveinar heild2

Spurt var: Hver er þinn uppáhalds jólasveinn?
Svarmöguleikar voru: Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir og ég á engan uppáhalds jólasvein.
Samtals tóku 68,3% afstöðu til spurningarinnar, aðrir kváðust ekki eiga uppáhalds jólasvein.
Hlutfallstölur eru reiknaðar sem hlutfall af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar.

 

Þó nokkur munur reyndist á vinsældum jólasveinanna eftir kyni svarenda. Kertasníkir er greinilega mikið kvennagull en heil 40% kvenna nefndu hann sem sinn uppáhalds jólasvein samanborið við 19% karla. Stúfur fylgdi fast á eftir Kertasníki í vinsældum meðal kvenna, en en 32% þeirra sögðu hann uppáhalds jólasveininn sinn. Til samanburðar völdu 27% karla Stúf sem uppáhalds sveininn sinn. Kertasníkir er því uppáhalds jólasveinn íslenskra kvenna 2017 en Stúfur uppáhalds jólasveinn íslenskra karla 2017. Landsmenn kunna greinilega vel að meta lætin og gauraganginn í Hurðaskelli og sögðust 14% karla og 11% kvenna halda mest upp á hann. Mikill munur var hins vegar á vinsældum Ketkróks eftir kynjunum og sögðu heil 11% karla hann vera uppáhalds jólasvein sinni, en einungis 2% kvenna.

Jólasveinar kyn

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 923 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 12. til 15. desember 2017

Eldri kannanir sama efnis:
2016 desember: Kertasníkir vinsælasti jólasveinninn
2015 desember: Vinsældir íslensku jólasveinanna