Samhliða fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi hefur MMR á undanförnum árum mælt viðhorf Íslendinga til þeirra gesta sem hingað sækja. Sé litið til síðustu þriggja ára kom í ljós að nokkuð hefur dregið úr jákvæðni. Þannig mátti sjá samkvæmt könnuninni sem lauk 21. júlí síðastliðinn, að 64,1% Íslendinga voru jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum samanborið við 67,7% árið 2016 og 80,0% árið 2015.

1707 ferdamenn01 

Spurt var: Almennt séð, hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ert þú gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi?
Svarmöguleikar voru: Mjög jákvæð(ur), frekar jákvæð(ur), hvorki jákvæð(ur) né neikvæð(ur), frekar neikvæð(ur), mjög neikvæð(ur) og veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 99,7% afstöðu til spurningarinnar.

Munur á viðhorfi eftir hópum

Almennt séð virtist meirihluti Íslendinga jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi en þó mátti sjá mun á viðhorfi eftir lýðfræðihópum. Þar mátti sjá að karlar (70,5%) voru líklegri en konur (57,5%) til að vera jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum. Fólk sem búsett var á höfuðborgarsvæðinu var einnig jákvæðara en fólk sem búsett var á landsbyggðinni gagnvart erlendum ferðamönnum. Þannig sögðust 67,5% þeirra sem búsett voru á höfuðborgarsvæðinu vera jákvæð gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi, samanborið við 58,0% þeirra sem búsett voru á landsbyggðinni.

Að auki kom í ljós að því hærri sem heimilistekjur svarenda voru því jákvæðari voru þeir gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi. Á þann hátt voru 52,7% svarenda sem höfðu heimilistekjur undir 400 þúsund jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum, borið saman við 78,2% þeirra sem höfðu milljón eða meira í heimilistekjur.

Einnig mátti sjá mun á viðhorfi til erlendra ferðamanna eftir stuðningi við mismunandi stjórnmálaflokka. Þar kom í ljós að stuðningsfólk Samfylkingarinnar var sá hópur sem var hvað jákvæðastur gagnvart erlendum ferðamönnum, eða 89,1%. Á móti var stuðningsfólk Framsóknarflokksins sá hópur sem var minnst jákvæðastur gagnvart erlendum ferðamönnum, eða 47,6%. Jafnframt var stuðningsfólk Framsóknarflokksins líklegasti hópurinn til að vera neikvæður í garð erlendra ferðamanna á Íslandi, eða 22,7%.

 1707 ferdamenn2

  

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 909 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 18. til 21. júlí 2017

Eldri kannanir sama efnis:
2016 Júlí könnun MMR: Viðhorf Íslendinga gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi
2015 Júlí könnun MMR: Viðhorf Íslendinga gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi