ESB

|

Í nýlegri könnun MMR voru 47,9% svarenda sem kváðust andvígir eða mjög andvígir því að Íslandi gangi í Evrópusambandið. Á móti voru 29,0% svarenda sem sögðust hlynntir eða mjög hlynntir því að Ísland gangi í Evrópusambandið.

1706 ESB 1

Spurt var: "Ert þú andvíg(ur) eða hlynnt(ur) því að Ísland gangi í Evrópusambandið (ESB)?".
Svarmöguleikar voru þeir sem sjást á myndinni auk svarmöguleikanna "Veit ekki" og "Vil ekki svara".
Samtals tóku 88,1% afstöðu til spurningarinnar.

Þróun yfir tíma

Litlar breytingar hafa verið á afstöðu almennings gagnvart inngöngu Íslands í ESB undanfarin þrjú ár. Ef litið er hins vegar til samanburðar til seinnihluta ársins 2012 hefur andvígum fækkað um rúmlega 10 prósentustig þegar milli 60 og 65% Íslendinga kváðust andvígir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Á sama tímabili hefur hlynntum fjölgað um 5 til 10 prósentustig.

1706 ESB 2

Munur á afstöðu milli hópa

Þegar afstaða almennings gagnvart inngöngu Íslands í ESB var skoðuð eftir samfélagshópum kom í ljós að fólk sem búsett var á höfuðborgarsvæðinu (34,3%) var hlynntara inngöngu Íslands í ESB heldur en fólk sem búsett var á landsbyggðinni (19,8%). Auk þess mátti sjá að fólk í aldurshópnum 50 til 67 ára og með milljón á mánuði eða meira í heimilistekjur voru líklegust til að vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB í samanburði við fólk í öðrum aldurs- og tekjuhópum. Einnig mátti sjá að flest þeirra sem studdu ríkisstjórnina voru andvíg inngöngu Íslands í ESB, eða 67,5%. Hins vegar voru þau sem studdu ekki ríkisstjórnina líklegri til að vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB, eða 38,0%. Þetta hlutfall hefur jafnast út frá því í maí 2016 þegar 82,4% þeirra sem studdu ríkisstjórnina sögðust vera andvíg inngöngunni og 39,2% þeirra sem studdu ekki ríkisstjórnina sögðust hlynnt henni.

Þá var stuðningsfólk Framsóknar (89,2%) og Sjálfstæðisflokksins (78,1%) líklegra en stuðningsfólk annarra hópa til að vera andvígt inngöngu Íslands í ESB. Aftur á móti var stuðningsfólk Samfylkingarinnar (77,3%) líklegast til að vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB í samanburði við stuðningsfólk annarra flokka. Þá var fleira stuðningsfólk Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar, Pírata og Viðreisnar sem sögðust hlynnt inngöngu Íslands í ESB en kváðust á móti inngöngu.

1706 ESB 3

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1017 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 15. til 21. júní 2017

Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.