Meirihluti Íslendinga telur hlutina á Íslandi almennt séð vera á rangri braut. Þetta sýnir nýleg könnun MMR sem framkvæmd var  1.-5. febrúar 2017. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðu 54,3% hlutina vera á rangri braut en 45,7% sögðu þá vera að þróast í rétta átt. 

Athyglisverður munur kemur í ljós þegar skoðaður er munur á svörum eftir því hverju Íslendingar sögðust hafa áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. Þeir sem höfðu áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum, fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði og viðhaldi velferðakerfisins voru líklegri til að telja hlutina á Íslandi almennt séð á rangri brauti. Þeir sem höfðu mestar áhyggjur af glæpum og ofbeldi, ofþyngd barna og verðbólgu reyndust líklegri til að telja hlutina á réttri leið.

 

 1702 throun 4Spurt var: „Almennt séð, myndir þú segja að hlutirnir séu að þróast í rétta átt á Íslandi eða eru þeir á rangri braut?“ Svarmöguleikar voru: ,,Á rangri braut'', ,,Í rétta átt'' og ,,Vil ekki svara''.
Samtals tóku 86,1% svarenda afstöðu til spurningarinnar.

Munur á afstöðu eftir lýðfræðihópum

Nokkur munur var á svörum eftir lýðfræðihópum. Aldurshópurinn 50-67 ára reyndist líklegastur til að telja hlutina á rangri braut eða 62%. Elsti og yngsti aldurshópurinn voru aðeins líklegri til að telja hlutina á réttri braut eða 52% þeirra 68 ára og eldri og 51% 18 ára og eldri. 

Af þeim sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu töldu 51% hlutina vera á rangri braut samanborið við 61% þeirra sem búsettir voru á landsbyggðinni. Eftir því sem heimilistekjur voru hærri, því líklegra var fólk til að telja hlutina vera að þróast í rétta átt.

Stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna voru líklegastir til að telja hlutina á Íslandi vera að þróast í rétta átt. Af stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins töldu 82% hlutina vera að þróast í rétta átt, 80% stuðningsmanna Viðreisnar og 61% stuðningsmanna Bjartrar framtíðar. Stuðningsmenn Pírata voru líklegastir til að telja hlutina á rangri braut eða 79%.

  

 1702 throun x 2

Tengsl við áhyggjur

MMR birti nýlega niðurstöður könnunar á því hverju landsmenn hafi mest áhyggjur af á Íslandi eða íslensku samfélagi. Í könnuninni voru þátttakendur beðnir um að tilgreina allt að þrjú atriði sem þeir hefðu mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. Skoðuð voru tengsl milli svara þátttakenda við þeirri spurningu og spurningarinnar um það hvort svarendur teldu að hlutirnir væru að þróast í rétta átt á Íslandi eða væru á rangri braut. Í ljós kom að af þeim sem kváðust helst hafa áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum töldu 68% hlutina á Íslandi almennt vera á rangri braut. Af þeim sem höfðu áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði vildu 66% meina að hlutirnir væru á rangri braut og 65% þeirra sem höfðu áhyggjur af viðhaldi velferðakerfisins. 

Af þeim sem höfðu áhyggjur af glæpum og ofbeldi töldu 80% hlutina á Íslandi almennt vera í rétta átt. Af þeim sem höfðu áhyggjur af ofþyngd barna töldu 73% hlutina vera á réttri leið og 61% þeirra sem höfðu áhyggjur af verðbólgu.

 1702 throun x ahyggjur 4

 

Til samanburðar má nefna að í könnun Ipsos sem gerð var í nóvember árið 2016 og náði til 25 landa kom í ljós að heilt yfir töldu 63% svarenda hlutina í heimalandi sínu vera á rangri braut en 37% töldu þá vera að þróast í rétta átt. Þegar litið er til einstakra landa reyndust Kínverjar líklegastir til að segja hlutina vera að þróast í rétta átt eða 90% en Mexíkanar voru ólíklegastir eða 4%.

 

MMR könnun 2016: Hverju höfum við áhyggjur af?
Ipsos Public Affairs könnun 2016: What worries the world?

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar, 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 983 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 1.-5. febrúar 2017