Jólahefðir

|

MMR stóð í ár, líkt og í fyrra, fyrir vinsældakosningu íslensku jólasveinanna. Kertasníkir reyndist hlutskarpastur annað árið í röð og heldur titlinum Vinsælasti jólasveinn Íslands. Kertasníkir var uppáhalds jólasveinn 30% þeirra sem sögðust eiga sér uppáhalds jólasvein, Stúfur (24%) var í öðru sæti og Hurðaskellir (11%) í því þriðja.  

Jólasveinunum Askasleiki, Þvörusleiki og Pottaskefli tókst ekki að auka vinsældir sínar frá því í fyrra og verma þeir enn botn vinsældalistans. Allir eiga þeir það sameiginlegt að vera þekktastir fyrir að eta það sem afgangs verður í búsáhöldum en slíkt háttalag virðist ekki falla í kramið hjá Íslendingum. Þeir bræður mældust allir undir 2% og hlaut Pottaskefill, sem var á ferðinni í nótt, ekki nema 0,6% atkvæða.  

 

1612 jolasveinar

Spurt var: Hver er þinn uppáhalds jólasveinn?
Svarmöguleikar voru: Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir og ég á engan uppáhalds jólasvein.
Samtals tóku 68,3% afstöðu til spurningarinnar, aðrir kváðust ekki eiga uppáhalds jólasvein.
Hlutfallstölur eru reiknaðar sem hlutfall af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar.

Þegar vinsældir jólasveinanna eru skoðaðar eftir aldri kemur í ljós að jólasveinarnir ná misvel til aldurshópa. Íslendingar 50 ára og eldri virðast nokkuð hrifnari en yngri aldurshópar af mathákunum Ketkrók og Bjúgnakræki. Þá er þessi aldurshópur jafnframt töluvert minna hrifinn af Hurðaskelli sem er í miklum metum hjá öðrum aldurshópum. 

1612 jolasveinar aldur

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 924 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 9. til 14. desember 2016

Eldri kannanir sama efnis:
2015 desember: Vinsældir íslensku jólasveinanna