Forseti Íslands

|

Dagana 6. til 9. maí kannaði MMR fylgi þeirra einstaklinga sem höfðu tilkynnt forsetaframboð. Niðurstöður leiddu í ljós að Guðni Th. Jóhannesson hefur mikla forystu með 59,2% fylgi. Sitjandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, kom þar á eftir með 25,3% fylgi, en fylgi hans hefur minnkað um rúm 27 prósentustig frá síðustu könnun sem gerð var í lok apríl, þegar hann mældist með 52,6% fylgi. Fylgi Andra Snæs Magnasonar hefur einnig minnkað um yfir 20 prósentustig frá síðustu könnun og mældist nú með 8,5% fylgi. Taka skal fram að Davíð Oddsson tilkynnti um framboð sitt þegar um 3/4 hluta gagnaöflunarinnar hafið verið lokið, en Davíð Oddssyni var bætt við sem svarmöguleika í könnuninni um leið og hann tilkynnti um framboð sitt. Því fengu 27% svarenda Davíð Oddsson sem svarmöguleika.

1605 09President mynd31

Spurt var: "Eftirfarandi einstaklingar hafa lýst yfir framboði til embættis forseta Íslands. Hvern þeirra myndir þú kjósa ef kosið yrði til forseta í dag?".
Svarmöguleikar voru þeir sem sjást á myndinni auk svarmöguleikanna "skila auðu", "Myndi ekki kjósa", "Veit ekki/ óákveðin(n)" og "Vil ekki svara".
Þau sem ekki tóku afstöðu voru síðan spurð: "En hver yrði líklegast fyrir valinu?", þar sem svarmöguleikar voru hinir sömu og í fyrri spurningu.
Þau sem ekki tóku afstöðu í annað sinn voru að lokum spurð: "Hvort er líklegra er að þú kysir sitjandi forseta eða einhvern hinna frambjóðendanna?".
Svarmöguleikar voru: "Sitjandi forseta", "Einhvern hinna frambjóðendanna", "Veit ekki/ óákveðin(n) og "Vil ekki svara".
Samtals tóku 91,8% afstöðu til spurningarinnar.

Munur á afstöðu milli hópa

Þegar fylgi þriggja efstu frambjóðendanna er skoðað eftir samfélagshópum kemur í ljós að Guðni Th. Jóhannesson hefur hlutfallslega meira fylgi hjá konum og þeim sem hafa lokið háskólanámi. Aftur á móti hefur Ólafur Ragnar Grímsson hlutfallslega meira fylgi meðal karlmanna og þeirra sem hafa skemmri skólagöngu að baki, en Ólafur hefur einnig mun meira fylgi á landsbyggðinni heldur en á höfuðborgarsvæðinu. Andri Snær Magnason hefur hlutfallslega mest fylgi meðal yngsta aldurshópsins og meðal fólks sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu. 

Ólafur Ragnar Grímsson nýtur meirihluta fylgis meðal þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn, en Guðni Th. og Andri Snær njóta meira fylgis meðal stuðningsmanna hinna flokkanna.

 

1605 09President mynd Update

 

Næsta val kjósenda

Þegar kjósendur voru spurðir hver yrði líklegast fyrir valinu ef þeirra fyrsta val væri ekki í framboði kom í ljós að bæði kjósendur Ólafs Ragnars Grímssonar og Andra Snæs Magnasonar væru líklegastir til að kjósa Guðna Th. Jóhannesson, en 50,6% fylgjenda Ólafs Ragnars sögðust myndu kjósa Guðna ef Ólafur Ragnar væri ekki í framboði og 76,7% fylgjenda Andra Snæs Magnasonar sögðust kjósa Guðna ef Andri Snær væri ekki í framboði. Af kjósendum Guðna Th. sögðust 26,3% vera líklegastir til að kjósa Ólaf Ragnar ef Guðni væri ekki í framboði og 31,0% sögðust vera líklegastir til að kjósa Andra Snæ ef Guðni væri ekki í framboði. Kjósendur annarra frambjóðenda væru líklegastir til að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson (39,3%) eða Guðna Th. Jóhannesson (32,2%) ef viðkomandi frambjóðandi væri ekki í framboði.

 

1605 09President mynd55Spurt var: "Ef (frambjóðandinn sem svarandinn valdi) væri ekki í framboði til embættis forseta Íslands, hvern myndir þú þá líklegast kjósa?".
Svarmöguleikar voru þeir sömu og í fyrri spurningu, að undanskyldum frambjóðandanum sem svarandi hafði áður valið.
Samtals tóku 65,0% afstöðu til spurningarinnar.

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 947 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 6. til 9. maí 2016

Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.

Þróun milli mælinga:

Ekki var spurt um traust til Landsdóms í fyrri mælingum.