Jólahefðir

|

MMR kannaði nýlega hvernig og hvort Íslendingar sendi jólakort þetta árið. Í ljós kom að flestir eða tæplega helmingur (46,8%) þeirra sem tóku afstöðu sögðust ætla að senda jólakort með bréfpósti. Þeir sem senda bæði með bréfpósti og rafrænt voru 9,5% og aðeins fleiri eða 10,7% þeirra sem tóku afstöðu sögðust ætla að senda eingöngu rafræn jólakort. Það sögðust þriðjungur eða 33% sem ætla sér ekki að senda jólakort þetta árið og nýta tímann fyrir jól í mögulega eitthvað annað.

1512 jolakort

Spurt var: Ætlar þú að senda jólakort til vina, ættingja og/eða vandamanna í ár? 
Svarmöguleikar voru: Já, með bréfpósti; Já, rafrænt (s.s. með tölvupósti eða í
gegnum samfélagsmiðla); Nei, ég sendi ekki jólakort; og Veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 92,9% afstöðu til spurningarinnar. Þeir sem tóku ekki afstöðu svöruðu
Veit ekki/vil ekki svara. Hlutfallstölur eru reiknaðar sem hlutfall af þeim sem tóku
afstöðu til spurningarinnar.

 

Munur á hvort fólk sendir jólakort eftir aldri, starfi og tekjum

Þeir sem voru í aldurshópnum 18-29 ára voru líklegri til að senda ekki jólakort borið saman við fólk á aldrinum 30 ára og eldra. Þannig sögðust 56,3% þeirra sem voru 18-29 ára ekki ætla að senda jólakort en undir 30% þeirra sem voru í öðrum aldurshópum ætla ekki að senda jólakort. Það er áhugavert að sjá að fleiri í eldri aldurshópunum 50 ára og eldri ætla að senda jólakort með rafrænum hætti og í bréfpósti borið saman við aðra aldurshópa.

Það reyndist einnig nokkur munur á hvort fólk sendir jólakort eftir starfi. Meiri en helmingur þeirra sem sögðust vera námsmenn ætla ekki að senda jólakort eða um 52,6% og þar á eftir kemur fólk í þjónustu-og afgreiðslustörfum eða um 43,6% segjast ekki ætla að senda jólakort. Þegar litið er til þess hvort fólk ætli að senda jólakort eftir tekjuflokkum kemur í ljós að tæp 56% þeirra sem eru í lægsta tekjuflokknum ætla ekki að senda jólakort borið saman við þá sem eru í þremur hæstu tekjuflokkunum þar sem undir 30% þeirra sem tóku afstöðu senda ekki jólakort.

1512 jolakort02

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 967 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 1. til 7. desember 2015