Stjórnmál

|

Katrin Jakobsdottir smallMMR kannaði álit almennings til persónueiginleika nokkurra stjórnmálaleiðtoga. Í könnuninni voru svarendur beðnir um að meta hvort nokkur persónueinkenni ættu við stjórnmálaleiðtogana eða ekki. Ef skoðuð eru svör þeirra sem tóku afstöðu má sjá að flestir töldu Katrínu Jakobsdóttur, Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Gnarr vera gædd þeim eiginleikum sem spurt var um.

Flestir töldu Katrínu Jakobsdóttur og Jón Gnarr vera heiðarleg. Þannig töldu 48,0% þeirra sem tóku afstöðu að Katrín Jakobsdóttir væri heiðarleg og 45,2% töldu Jón Gnarr vera heiðarlegan. Til samanburðar töldu 10,9% að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson væri heiðarlegur.

45,2% þeirra sem tóku afstöðu töldu að Katrín Jakobsdóttir stæði við eigin sannfæringu, samanborið við 14,7% sem töldu Bjarna Benediktsson standa við eigin sannfæringu.

Jón Gnarr þótti í mestum tengslum við almenning og helst gæddur persónutöfrum. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 42,6% telja að Jón Gnarr væri í tengslum við almenning og 40,3% töldu hann gæddan persónutöfrum. Til samanburðar töldu 7,5% að Bjarni Benediktsson væri í tengslum við almenning og 7,1% töldu að Birgitta Jónsdóttir væri gædd persónutöfrum.

Flestum þótti Katrín Jakobsdóttir og Ólafur Ragnar Grímsson vera ákveðin, sterk og að þau ynnu vel undir álagi. Þannig töldu 41,0% Katrínu vera ákveðna og 38,7% töldu Ólaf Ragnar vera ákveðinn, til samanburðar töldu 14,8% Jón Gnarr vera ákveðinn. 35,2% töldu Ólaf Ragnar vera sterkan einstakling og 33,3% töldu Katrínu vera sterkan einstakling, til samanburðar töldu 10,1% að Árni Páll Árnason væri sterkur einstaklingur. 25,0% töldu að Ólafur Ragnar ynni vel undir álagi og 24,6% töldu að Katrín ynni vel undir álagi, til samanburðar töldu 8,7% að Birgitta Jónsdóttir ynni vel undir álagi.

Ólaf Ragnar Grímsson var helst álitinn fæddur leiðtogi. Af þeim sem tóku afstöðu töldu 28,8% að Ólafur Ragnar væri fæddur leiðtogi, borið saman við 3,1% sem töldu að Birgitta Jónsdóttir væri fæddur leiðtogi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Árni Páll Árnason og Bjarni Benediktsson voru þeir stjórnmálamenn sem flestir sögðu að byggju ekki yfir neinum af þeim eiginleikum sem spurt var um. Þannig sögðu 47,0% þeirra sem tóku afstöðu að Sigmundur Davíð byggi ekki yfir neinum af þeim eiginleikum sem spurt var um, 39,9% sögðu Árna Pál ekki búa yfir neinum af þeim eiginleikum sem spurt var um og 38,9% sögðu Bjarna Benediktsson ekki búa yfir neinum af þeim eiginleikum sem spurt var um.

1404 eiginleikar 04

Spurt var: „Ef þú hugsar um eftirtalda einstaklinga. Hvaða kostum, af eftirfarandi, finnst þér hver þeirra búa yfir?- merktu við alla þá kosti sem þér finnst að eigi við um hvern og einn einstakling?" Einstaklingarnir og kostirnir sem spurt var um voru eins og að ofan greinir.
Samtals tóku 85,3% afstöðu til spurningarinnar (að hluta til eða í heild).
*ekki eru til mælingar á öllum aðilunum í öll skipti

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára  og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 960 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 28. mars til 1. apríl 2014

Eldri kannanir sama efnis:
Mars 2011: MMR könnun: Persónueinkenni stjórnmálaleiðtoga

Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.

Þróun milli mælinga:

Ekki var spurt um traust til Landsdóms í fyrri mælingum.