Auglýsingastofan Brandenburg hefur verið valin auglýsingastofa ársins. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi þjónustu, hugmyndaauðgi, fagleg vinnubrögð og áherslu á árangur viðskiptavina á nýliðnu ári. Þá var Wow air valið vörumerki ársins fyrir framúrskarandi markaðssetningu á árinu 2017.

Ólafur Þór Gylfason, framkvæmdastjóri MMR, tilkynnti sigurvegarana á ÍMARK deginum sem haldinn var hátíðlegur síðastliðinn föstudag. Valið byggir á árlegri könnun MMR meðal ríflega 350 stjórnenda markaðsmála hjá stærstu auglýsendum landsins. Verðlaunaafhendingin er hluti af samstarfsverkefni MMR, ÍMARK - Samtaka markaðsfólks á Íslandi, og SÍA - Sambands íslenskra auglýsingastofa sem miðar að því að auka upplýsingagjöf um árangur í markaðsstarfi og vekja athygli á því sem vel er gert.